Jón Þór nýr landsliðsþjálfari A-landsliðs kvenna

Jón Þór Hauksson var í dag ráðinn sem landsliðsþjálfari A-landsliðs kvenna í knattspyrnu. Ian Jeffs, sem þjálfaði kvennalið ÍBV á síðustu leiktíð, verður aðstoðarþjálfari. Jón Þór verður þar með fjórði Skagamaðurinn sem stýrir A-landsliði hjá KSÍ frá upphafi.

Ég er mjög stoltur af því að hafa fengið þetta tækifæri. Ég hlakka til að vinna með þessu frábæra liði og frábæru leikmönnum,“ segir Jón Þór við fotbolti.net og bætir við.

„Ég hef fylgst vel með kvennalandsliðinu undanfarin ár, sem aðdáandi og stuðningsmaður.“

Ríkharður Jónsson var fyrsti Skagamaðurinn til að taka að sér þjálfun A-landsliðs hjá KSÍ. Ríkharður var landsliðsþjálfari karlalandsliðsins fyrst árið 1961 og á ný á tímabilinu 1969-1971. Þess má geta að Ríkharður var stjúpafi Jóns Þórs til margra ára og lærði Jón Þór m.a. málaraiðn hjá Ríkharði.

Steinn Helgason var fyrsti Skagamaðurinn sem þjálfaði A-landslið kvenna í knattspyrnu. Hann var þjálfari árið 1992 ásamt Sigurði Hannessyni.

Guðjón Þórðarson var þriðji í röðinni en hann þjálfaði A-landslið Íslands á árunum 1997-1999. Jón Þór var aðstoðarþjálfari hjá Guðjóni þegar hann stýrði ÍA á árunum 2006-2007.

Skagatengingin er við marga af þjálfurum kvennalandsliðsins í gegnum tíðina. Vanda Sigurgeirsdóttir var leikmaður ÍA á sínum tíma, líkt og Helena Ólafsdóttir – sem er núverandi þjálfari mfl. kvenna hjá ÍA. Logi Ólafsson þjálfaði m.a. karlalið ÍA á sínum tíma og Sigurður Ragnar Eyjólfsson lék með liði ÍA á árum áður.

Þjálfarar kvennalandsliðsins frá upphafi.

Sigurður Hannesson 1981-1984
Sigurbergur Sigsteinsson 1985-1986
Aðalsteinn Örnólfsson 1987
Sigurður Hannesson og Steinn Mar Helgason 1992
Logi Ólafsson 1993-1994
Kristinn Björnsson 1995-1996
Vanda Sigurgeirsdóttir 1997-1999
Þórður Georg Lárusson 1999-2000
Logi Ólafsson 2000
Jörundur Áki Sveinsson 2000-2003
Helena Ólafsdóttir 2003-2004
Jörundur Áki Sveinsson 2004-2006
Sigurður Ragnar Eyjólfsson 2007-2013
Freyr Alexandersson 2013-2018
Jón Þór Hauksson 2018 –

Auglýsing