Mikið tap á rekstri Leynis – fjórir kylfingar fengu viðurkenningu

Fjórir kylfingar úr röðum Leynis fengu viðurkenningar á aðalfundi golfklúbbsins sem fram fór s.l. þriðjudag.

Reksturinn á golfklúbbnum var erfiður á þessu ári. Niðurstaðan var mikið tap var á rekstrinum eða sem nemur tæplega 11 milljónum kr.

Rekstrartekjur á árinu voru 78.7 milljónir samanborið við 71.6 milljónir árið 2017. Rekstrargjöld voru 87.9 milljónir samanborið við tæpar 76 milljónir árið 2017.

Rekstrarafkoma var neikvæð um rúmar 9 mkr. og heildartap árins að teknu tilliti til fyrninga og fjármunagjalda var tæpar 11 mkr.

Í skýrslu stjórnar kom fram að þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði og leiðinlegt veður fyrri hluta sumars skartaði Garðavöllur sýnu fegursta og var umtalað í hversu góðu ástandi völlurinn var. Fjölgun var í hópi félagsmanna sem er mikið ánægjuefni en félagsmenn telja tæplega 500 manns. Spiluðum hringjum fækkaði milli ára en spilaðir voru 14.100 hringir samanborið við 16.235 hringi árið 2017.

Einnig kom fram að ný frístundamiðstöð mun án efa styðja vel við rekstur Leynis og gjörbreyta rekstrarumhverfi klúbbsins.

Skýrslu stjórnar og ársreikninga Leynis má lesa hér: 


Smelltu á myndina til að opna ársreikning Leynis og skýrslu stjórnar. 

Bára Valdís Ármannsdóttir fékk háttvísisverðlaun GSÍ en þau eru veitt ár hvert þeim kylfingi undir 18 ára aldri sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem Leynir vill sjá í afreksefnaunglingum sínum.

Þórður Elíasson fékk Guðmundar – og Óðinsbikarinn fyrir gott og óeigingjarnt starf í þágu Leynis undanfarna áratugi. Þórður hefur verið félagsmaður í Leyni í tæplega 30 ár.

Árni Pétur Reynisson fékk viðurkenningu fyrir mestu forgjafarlækkun hjá Leyni en Árni Pétur lækkaði úr 54,0 í 19.2 á árinu 2018. Reynir Þorsteinsson, faðir Árna, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd. Þórður Emil Ólafsson formaður Leynis afhenti viðurkenninguna.

Óskar Úlfar Kristófersson fékk viðurkenningu fyrir flesta spilaða hringi á árinu en þeir töldu um 88 frá opnun vallar til lokunar nú í haust. Gera má ráð fyrir að Óskar hafi gengið tæplega 900 km. á þessum 88 golfhringjum sumarsins. Þórður Emil Ólafsson formaður Leynis afhenti viðurkenninguna