Á þriðja hundrað börn og ungmenni þenja raddböndin á Akranesi



Það stendur mikið til á Akranesi um helgina þegar landsmót barna – og unglingakóra fer fram á Akranesi.

Skólakór Grundaskóla er gestgjafi mótsins en vel á þriðja hundrað börn – og ungmenni ætla að þenja raddböndin á Akranesi dagana 15.-17. mars í Grundaskóla.

Mót eins og þessi eru haldin annað hvert ár á mismunandi stöðum á landinu og nú er komið að Akranesi.

Það er eldri hópur skólakórs Grundaskóla sem er gestgjafakór í ár og stjórnandi kórsins, Valgerður Jónsdóttir, heldur utan um skipulag og framkvæmd mótsins fyrir hönd Tónmenntakennarafélags Ísland, KórÍs og Grundaskóla.

Von er á um 250 söngglöðum krökkum frá 5. bekk og uppúr en þau munu vinna saman í söngsmiðjum og halda svo lokatónleika í Grundaskóla á sunnudeginum kl. 13.30.

Flestir eru kórarnir af SV- horni landsins en nokkrir þeirra koma lengra að t.a.m. einn frá Akureyri.

Áhersla er lögð á að tengja mótið við bæjarlífið þannig að bæjarbúar geta átt von á að rekast á kórana á flakki um bæinn á laugardeginum. Þá koma nokkrir kóranna fram á Dvalarheimilinu Höfða og í Akraneskirkju auk þess sem lokatónleikarnir eru öllum opnir.

Tónlistin sem unnið verður með er að hluta til eftir Skagafólk og leitað var til tónlistarfólks og kennara á Akranesi með ýmislegt tengt mótinu. Einnig æfa kórarnir nýtt tónverk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, verkið heitir Fögnuður og var samið serstaklega fyrir mótið.

Skólakór Grundaskóla fékk á dögunum úthlutað menningarstyrk frá Akraneskaupstað sem gerir kórnum enn frekar kleift að standa vel að mótinu.

Bæjarbúar eru hvattir til að mæta á lokatónleika kóramótsins sunnudaginn 17. mars kl. 13.30 í sal Grundaskóla.

Auglýsing



Auglýsing