Helena þjálfari ÍA – Öflugur stuðningur getur skipt sköpum fyrir liðið okkar


„Ég vil hvetja alla Skagamenn til að fjölmenna á leikinn og styðja stelpurnar. Við eigum ungt og efnilegt kvenna lið og það verðskuldar góðan stuðning. Þessir ungu leikmenn stefna óhræddar á toppbaráttuna og öflugur stuðningur frá Skagamönnum getur breytt miklu fyrir liðið,“ segir Helena Ólafsdóttir þjálfari kvennaliðs ÍA í knattspyrnu.

Upphafið á keppnistímabilinu í Inkasso-deildinni hefur verið gott hjá ÍA en það er ljóst að mikil baráttta verður um efstu sætin og að komast upp í PepsiMax-deildina.

ÍA tekur móti liði Grindavíkur í kvöld á Norðurálsvellinum og hefst leikurinn kl. 19:15. Grindavík féll úr efstu deild í fyrra og er ljóst að verkefnið verður krefjandi fyrir ÍA.

Leikmannahópur ÍA er einn sá allra yngsti í Inkasso-deildinni. Liðið hefur farið vel af stað en ÍA sigraði Fjölni 3-1 í síðustu umferð. ÍA er með 4 stig í fimmta sæti deildarinnar.

„Ég og allt liðið er bara spennt fyrir leiknum. Við viljum klárlega spila betur en í síðasta leik en þá gekk samspil okkar ekki nægjanlega vel. Í raun var sigurinn og stigin það eina sem var jákvætt í þeim leik. Við verðum þó að taka tillit til að leikjaálag er mikið og það hefur áhrif. Það má búast við miklum baráttuleik en Grindvíkingar féllu úr Pepsídeildinni í fyrra og vilja örugglega komast beint upp aftur. Skagastelpur eru hins vegar klárar í leikinn og ætla sér sigur. Við tökum mikilvægan lærdóm út úr síðasta leik og ég er viss um að mínir leikmenn mæta einbeittir til leiks í kvöld. Undirbúningurinn hefur miðast við að laga það sem fór afvega í síðasta leik. Við getum spilað góðan varnarleik en nú er komin tími á að ná meiri skerpu á sóknarleikinn einnig. Við Skagamenn teflum fram einu yngsta liðinu í deildinni og því er mikilvægt að styðja vel við bakið á stelpunum í harðri baráttu í allt sumar.“ segir Helena í viðtali á heimasíðu KFÍA.