Hákon Arnar samdi við FCK í Kaupmannahöfn


Knattspyrnumaðurinn Hákon Arnar Haraldsson er á förum frá ÍA en hann hefur samið við danska meistaraliðið FCK í Kaupmannahöfn.

Hákon Arnar er fæddur árið 2003 og lauk hann grunnskólanámi s.l. vor.

Hákon Arnar hefur farið í nokkur skipti til FCK til að skoða aðstæður og æfa með félaginu.

Hann verður í unglinga-akademíu félagsins fyrst um sinn og er samningurinn til þriggja ára.

Fleiri félög höfðu áhuga á að fá Hákon Arnar í sínar raðir. Hann hefur m.a farið í heimsókn og æft með Bröndby í Danmörku og Norrköping í Svíþjóð.

Hákon Arnar hefur æft og leikið með meistaraflokki ÍA á undanförnum mánuðum. Hann kom við sögu í leikjum meistaraflokks ÍA á undirbúningstímabilinu.

Hákon Arnar viðbeinsbrotnaði fyrir nokkrum vikum og setti það strik í reikninginn hjá honum.

Hákon Arnar fer til Danmerku fljótlega og mun því ekki leika með ÍA í Pepsi-Maxdeildinni á þessu tímabili.

Haraldur Ingólfsson, Haukur Haraldsson, Hákon Haraldsson og Jónína Víglundsdóttir. Mynd/Totalfootball.

Hákon Arnar kemur úr stórri knattspyrnufjölskyldu. Foreldrar hans léku bæði með A-landsliði Íslands, þau Jónína Víglundsdóttir og Haraldur Ingólfsson. Eldri systkini hans hafa látið að sér kveða með ÍA, Unnur Ýr og Tryggvi Hrafn sem leikur með ÍA í Pepsi-Maxdeildinni.

https://www.instagram.com/p/BzNnuMfAPvS/?utm_source=ig_web_copy_link