Andri Snær fékk heiðursviðurkenningu á ÓL í stærðfræði


Andri Snær Axelsson náði frábærum árangri á Ólympíuleikunum í stærðfræði sem fram fóru í Bath á Englandi nýverið.

Skagamaðurinn var í sterku liði Íslands en árangur liðsins var góður. Andri Snær og Vigdís Gunnarsdóttir fengu bæði heiðursviðurkenningu. Þau náðu fullu húsi fyrir dæmi sem lögð voru fyrir keppendur.

Andri Snær og félagar hans í liðinu kepptu við marga af efnilegustu stærðfræðingum veraldar. Og við lögðum saman 2 og 2 og fengum það út að Andri Snær er að sjálfsögðu í þeim hópi.

Í liði Íslendinga eru þau Vigdís Gunnarsdóttir, Andri Snær Axelsson, Arnar Ágúst Kristjánsson og Árni Bjarnsteinsson, sem koma öll úr MR, Friðrik Snær Björnsson úr MA og Tómas Ingi Hrólfsson úr MH.

Þjálfari þeirra er Álfheiður Edda Sigurðardóttir sem brautskráðist með gráðu í stærðfræði s.l. í vor. Íslenska liðið æfði í norrænum búðum í Sorø í Danmörku áður en haldið var til keppni í Bath.

Jóhanna Eggertsdóttir stærðfræðikennari í MR var fararstjóri liðsins.