Guðjón skorar á heilbrigðisráðherra að fjölga liðskiptaaðgerðum á Akranesi


Guðjón S. Brjánsson, alþingismaður Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi, skorar á Heilbrigðisráðherra að skoða þann möguleika að nýta betur skurðstofurnar á Sjúkrahúsinu á Akranesi. Guðjón er fyrrum forstjóri Heilbrigðisstofnunnar Vesturlands á Akranesi.

Þingmaðurinn sagði þetta í ræðu sinni á Alþingi, og beindi þeim tilmælum til heilbrigðisráðherra að nýta sér þá kostnaðargreiningu sem þegar hefur farið fram varðandi liðskiptaaðgerðir og hafa leitt í ljós að hægt er að framkvæma slíkar aðgerðir á hagstæðari hátt á Sjúkrahúsinu á Akranesi heldur en annars staðar.

Hér er ræðan í fullri lengd.

Virðulegur forseti. Um helgina var greint frá því í fjölmiðlum að fresta hafi þurft meira en 300 skurðaðgerðum á Landspítala á síðustu 12 mánuðum. Þetta er ekki óeðlilegt ef horft er til þess að Landspítali er sérhæfðasta bráðasjúkrahús landsins og bráðatilvik ganga fyrir. Þannig virka bráðasjúkrahús. Þessar frestanir þýða að einstaklingar sem þegar hafa beðið allt að tíu mánuði, sem er meðalbiðtími á Landspítala, þurfa að bíða enn lengur við óþægindi, skert lífsgæði og jafnvel þjáningar.

Guðjón Brjánsson. Mynd/Alþingi.

Við getum gert betur í þessum efnum og okkur ber að leita allra leiða. Við eigum opinberar heilbrigðisstofnanir í nánd við höfuðborgina sem hafa möguleika til að koma til liðs en þær hafa ekki verið nýttar sem skyldi. Það er fyrirtaksreynsla af sérhæfðum verkefnum á þessum stofnunum þótt fáar hafi fengið að lifa af í aðgerðastarfsemi eftir niðurskurð undanfarinna ára. Heilbrigðisstofnunin á Akranesi er þó ein þeirra en þar er öflug sérhæfð starfsemi á skurðsviði, kvennaaðgerðir og liðskiptaaðgerðir og fleiri mjög sérhæfðar, vandasamar aðgerðir.

Í svari við fyrirspurn minni fyrir allnokkru kom fram hjá ráðherra að með tilliti til kostnaðar sker ein stofnun sig úr hvað varðar liðskiptaaðgerðir, kostnað á hverja aðgerð á mjöðm og hné. Það er Akranes. Kostnaðurinn var um 35% hærri á Landspítala en á Akranesi og um 31% hærri á Sjúkrahúsinu á Akureyri en á Akranesi.

Allar spár hníga í þá átt að við höfum enn ekki undan varðandi biðlistaaðgerðir. Þjóðin þyngist, álagsmeiðsli og stoðkerfisvandamál eru útbreidd. Það þarf að bæta í fjármunum og það þarf líka að bæta skipulagið, styrkja sérhæfða umgjörð og tryggja samfellu. Ég hvet því ráðherra og skora raunar á hana að nýta sér þá kostnaðargreiningu sem þegar hefur farið fram varðandi liðskiptaaðgerðir. Það blasir við (Forseti hringir.) skynsamlegur, hagkvæmur og faglega öflugur kostur sem tryggir jafnframt góða nýtingu á innviðum í sameiginlegri eigu.