Myndband: Svona er staðan á Laugardalsvelli – styttist í stórleik gegn Rúmeníu


Það eru rétt um þrjár vikur þar til að karlalandslið Íslands mætir liði Rúmeníu í umspilsleik um sæti á Evrópumótinu í knattspyrnu.

Leikurinn fer fram 26. mars á Laugardalsvelli og er uppselt á leikinn.

Eins og sjá má á þessum myndum sem teknar voru í veðurblíðunni í Laugardalnum í morgun þarf margt að ganga upp til þess að leikurinn fari fram við góðar aðstæður.

Í morgun voru starfsmenn að blása snjó af vellinum og næstu skref er að setja tjald eða „hitapylsu“ yfir völlinn. Slíkt var gert fyrir leik gegn Króatíu árið 2013.

Skagamaðurinn Bjarni Hannesson, einn fremsti grasvallasérfræðingur landsins, kemur að þessu verkefni sem nefndarmaður í mannvirkjanefnd KSÍ.

Kristinn V. Jóhannsson vallarstjóri Laugardalsvallar stýrir verkefninu.

Það má einnig gera ráð fyrir að fyrrum leikmenn ÍA verði í landsliðshópnum. Má þar nefna Arnór Sigurðsson úr rússneska úrvalsdeildarliðinu CSKA Moskvu.

Kristinn V. Jóhannsson og Bjarni Hannesson.

Markmið með hitapylsunni eru:

  • Ná bleytunni úr vellinum – minnka rakastig
  • Losna við allt frost í jarðvegi
  • Ná upp hita í jarðveginum

Hitapylsan kemur frá Bretlandi og með í för eru fjórir starfsmenn fyrirtækisins sem á hana. Þeir munu vakta hitapylsuna allan sólarhringinn og vera klárir ef eitthvað kemur upp á, til að mynda rafmagnsleysi.

Nánar má lesa um það verkefni í þessari frétt á fotbolt.net.