„Í öllum áskorunum leynast tækifæri“ – segir formaður Golfklúbbsins Leynis


Félagsmenn í Golfklúbbnum Leyni tóku saman höndum í gær á vinnudegi klúbbsins. Garðavöllur kemur vel undan vetri og er stefnt að því að opna völlinn formlega í byrjun maí. Pétur Ottesen, formaður Leynis, skrifaði eftirfarandi pistil en staða klúbbsins er að sjálfsögðu óvenjuleg á tímum samkomubanns – en formaðurinn er bjartsýnn á golfsumarið 2020 eins og fram kemur í pistlinum.

Kæru félagar,

Þá er fordæmalaus vetur loks á enda og með þeim formerkjum að þessum vetri gleymum við seint. Fyrri hluta vetrar dundu á okkur veðurviðvaranir sem spönnuð litrófið frá gulu yfir í rautt til skiptist, þegar því tímabili lauk tók svo við faraldur af stærðargráðu sem fæst eða ekkert okkar hefur upplifað áður.

Við sem búum í þeim landshluta sem telst til Vesturlands höfum þó ekki þurft að upplifa þetta með jafn dramatískum hætti og margir aðrir. Kannski vorum við einfaldlega heppinn. Það er þó mín skoðun að við höfum í bland við mögulega heppni, borið gæfu til að haga okkur með þeim hætti að fyrirmælum um smitvarnir hafi í megin atriðum verið fylgt af skynsemi og gripið hafi verið til þeirra ráðstafana sem líklegar voru til árangurs. Það breytir ekki þeirri staðreynd að víða um land á fólk um sárt að binda vegna alvarlegra veikinda og ástvinamissis. Hugur okkur hjá þeim sem eiga um sárt að binda á þessum erfiðu tímum.

Þetta COVID ástand hefur haft mikil áhrif á afkomu fólks og fyrirtækja, þar með hefur þetta mikil áhrif á rekstur starfsemi Golfklúbbsins Leynis eins og allra félagasamtaka sem byggja afkomu sína á félagsgjöldum og eftir hendinni styrkjum og aðkomu fyrirtækja með einhverjum hætti. Það er þegar ljóst að talsverður fjöldi golfmóta sem fyrirhuguð voru af utanaðkomandi aðilum munu ekki fara fram nú í sumar. Aukinheldur hafa tekjur af útleigu Frístundamiðstöðvarinnar verið þurrkaðar út í mars, apríl, maí og júní að hluta.

Þó að myndin sem ég hef málað upp megi virðast dökk er því fjarri að við horfum til framtíðar með vonleysi í augum. Í öllum áskorunum leynast tækifæri og það á einnig við þá miklu áskorun sem við höfum staðið frammi fyrir á síðustu vikum en sjáum vonandi fyrir endann á.

Ef veðurguðirnir verða okkur bærilega hliðhollir, ef okkur ber gæfa til að virða þær takmarkanir sem okkur eru settar og ef við leggjumst öll á eitt eru tækifærin vissulega til staðar. Fastlega má gera ráð fyrir aukinni umferð um Garðavöll í sumar þar sem landsmenn munu verða mun minna á faraldsfæti en á umliðnum árum. Með samstilltu átaki í að hafa völlinn í sínu besta ástandi verður golfiðkun á Garðavelli vafalítið fýsilegur kostur fyrir golfara af höfuðborgarsvæðinu þar sem aðgengi að golfi er takmarkað m.v. fjölda skráðra iðkenda.


Snúum bökum saman (með tilheyrandi fjarlægð að sjálfsögðu), sameinumst um að halda Garðavelli í sínu besta mögulega ástandi og fyllum samfélagsmiðla af jákvæðum og uppbyggilegum fréttum af þeirri góðu aðstöðu sem við búum yfir til golfiðkunar hér á Akranesi með myllumerkinu #golfakranes og #akranesgolf.

Að óbreyttu stefnum við að opnun Garðavallar 5. maí nk., hvernig fyrirkomulag golfspilamennsku verður nákvæmlega liggur ekki fyrir – en vonir standa til að það geti verð með sem eðlilegustum hætti. Það er undir okkur komið að það sé mögulegt.

Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna GL þakka ég ykkur þann skilning sem þið hafið sýnt breyttum aðstæðum á þeim undarlegu tímum sem á undan eru gengnir.

Fyrst og fremst óska ég ykkur þó öllum gleðilegs sumars og hlakka til að sjá ykkur sem flest í golfi í sumar.

Pétur Ottesen, formaður Golfklúbbsins Leynis

Garðavellir er nafnið á frístundamiðstöðinni og var nýtt skilti sett upp á Sumardaginn fyrsta.
Vanir menn: Pétur Ottesen og Óli B. Jónssson.
Í öllum áskorunum leynast tækifæri segir Pétur Ottsen formaður Leynis sem er hér með Óla B. Jónssyni stjórnarmanni við lagfæringar í mótttökunni á Garðavöllum.
Afgreiðsla Leynis á Garðavöllum hefur tekið smá breytingum.
Frá vinnudegi á Garðavelli s.l. fimmtudag.
Frá vinnudegi á Garðavelli s.l. fimmtudag. Nýr teigur á 3. braut er í vinnslu – og verður mun stærri en sá eldri.
Frá vinnudegi á Garðavelli s.l. fimmtudag.
Frá vinnudegi á Garðavelli s.l. fimmtudag.
Kristvin Bjarnason formaður vallarnefndar við grisjun á trjám við 2. flöt á Garðavelli.
Frá vinnudegi á Garðavelli s.l. fimmtudag.
Frá vinnudegi á Garðavelli s.l. fimmtudag. Hannes Marinó Ellertsson rifjar upp gamla takta á flatarslátturvélinni.
Frá vinnudegi á Garðavelli s.l. fimmtudag. Hróðmar Halldórsson rifjaði upp gamla takta á flatarslátturvélinni. Og flötin við 4. brautina lítur vel út eins og sjá má.