Fjölbreyttar áherslur í nýju þróunarsetri á Breið á Akranesi


Eins og kom fram í dag á skagafrettir.is var í dag stofnað þróunarfélag á vegum Brims og Akraneskaupstaðar. Markmið félagsins er að vinna að atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Breið á Akranesi.

Í tilkynningu frá Akraneskaupstaðar er sagt frá því að uppbyggingin verði áfangaskipt til langs tíma þar sem lagt verður upp með ferðaþjónustu, heilsu og hátækni.

Félaginu er ætlað að efla atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu og þá er gert ráð fyrir nýrri íbúabyggð á Breið.

Brim og Akraneskaupstaður eiga meirihluta lóða og fasteigna á Breið þar sem liggja einstök tækifæri til uppbyggingar.

Markmið aðila er að skapa umhverfi þar sem miðlun ólíkrar þekkingar á sviði tækni, lýðheilsu og umhverfismála muni stuðla að rannsóknum og nýsköpun í fremstu röð sem muni leysa úr ólíkum áskorunum og vandamálum sem að heiminum steðja.

Þá verði lögð áhersla á verkefni sem stuðla á einn eða annan hátt að því að Ísland nái að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar í umhverfismálum

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir verndari verkefnisins

Í tilefni af stofnun félagsins hefur Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tekið að sér að vera sérlegur verndari verkefnisins og skrifað undir viljayfirlýsingu um fyrsta verkefni þróunarfélagsins um stofnun rannsóknar- og nýsköpunarseturs auk samvinnurýmis á Breið.

„Við þurfum að hlúa að nýsköpun og leggja okkur fram um að skapa henni umhverfi þar sem miðlun ólíkrar þekkingar og sköpun geta blómstrað. Með þessari viljayfirlýsingu eru stigin stór skref fyrir nýsköpunarumhverfið og atvinnulífið á Vesturlandi og ekki síst fyrir markmiðin um störf án staðsetningar. Það er mér sannur heiður að fá að vera verndari verkefnisins,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Auk Þórdísar hafa eftirfarandi aðilar lýst yfir vilja sínum til að eiga samstarf um að á Akranesi byggist upp nýsköpunar- og rannsóknarsetur auk samvinnurýmis:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytiðAkraneskaupstaður
ÁlklasinnBreið þróunarfélag
BrimCoworking Akranes
Fasteignafélagið Hús ehf. Faxaflóahafnir
Fjölbrautaskóli Vesturlands – FVA Háskólinn á Bifröst
Háskóli Íslands Heilbrigðisstofnun Vesturlands – HVE
Landbúnaðarháskóli Íslands Matís
Samtök Sveitafélaga á Vesturlandi – SSV Skaginn 3X
Þróunarfélagið á Grundartanga
  

Rannsóknar- og nýsköpunarsetur

Byggt verði upp rannsóknar- og nýsköpunarsetur, aðstaða sem býður upp á lifandi starfsemi og innblástur til skapandi lausna þvert á greinar. Stafræn smiðja (Fab Lab) verður komið fyrir í húsnæði sem gerir frumkvöðlum kleift að vinna saman að hönnun og útfærslu hugmynda. Þá verður samstarf við lykil atvinnugreinar og öflug fyrirtæki um rannsóknir og nýsköpun í snjallvæðingu í samstarfi við skóla landsins.

Áhersla á rannsóknir á hafinu og nýsköpun hefur aldrei verið mikilvægari. Miklar umhverfisbreytingar eiga sér stað og áríðandi er að efla grunnrannsóknir, m.a. á umhverfisbreytingum eins og súrnun sjávar.

Samvinnurými – fjarvinnuaðstaða

Komið verði upp aðstöðu á Breið á Akranesi – aðlaðandi og lifandi samvinnuvinnurými, þar sem heimamenn og aðrir geti stundað fjarvinnu frá vinnustað að hluta eða öllu leyti. Ráðuneyti og opinberar stofnanir nýti samvinnurými á Breið til að styðja við framkvæmd stefnumarkandi byggðaáætlunar um „Störf án staðsetningar“.

Á næstunni verður efnt til hugmyndasamkeppni um nafn á setrinu auk þess sem opinn dagur verður síðar í sumar þar sem öllum gefst kostur á að skoða húsnæðið. Reynslan sem fæst af verkefninu ætti að geta haft yfirfærslugildi fyrir önnur svæði á landinu sem mörg hver búa við breyttar aðstæður í atvinnuháttum.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/07/02/kraftmikid-throunarfelag-sett-a-laggirnar-a-akranesi-breidin-vaknar-til-lifsins-a-ny/