Sjáðu markaregn ÍA gegn Gróttu – Skagamenn skora mörkin


Karlalið ÍA tyllti sér í annað sætið í Pepsi-Max deildinni í knattspyrnu í gær með 4-0 sigri á nýliðum Gróttu á Seltjarnarnesi.

Þetta var í fyrsta sinn sem liðin eigast við í efstu deild karla.
Skagamenn gerðu út um leikinn á fyrstu 34. mínútunum með fjórum frábærum mörkum.

Viktor Jónsson skoraði strax á 4. mínútu, Stefán Teitur Þórðarson kom ÍA í 2-0 á 13. mínútu, Brynjar Snær Pálsson bætti við þriðja markinu með þrumuskoti á 18. mínútu. Viktor var aftur á ferðinni á 34. mínútu þegar hann kom ÍA í 4-0.

Hér fyrir neðan eru mörkin úr leiknum frá Stöð 2 sport og Visir.is.

Á fésbókarsíðu stuðningsmanna ÍA kemur fram að markaregnið á Seltjarnarnesi markar stærsta sigur ÍA í efstu deild um nokkurt skeið.

Meistaraflokkur karla hefur ekki haft slíka yfirburði á útivelli í efstu deild síðan liðið vann Keflavík með sömu markatölu, 0-4, árið 2015. Enn lengra er liðið frá jafn stórum sigri á heimavelli, gegn Selfyssingum 2012. ÍA hefur ekki unnið stærri sigur í efstu deild síðan í 5-0 útisigri á KA 2004.

Eins og áður segir er ÍA í öðru sæti deildarinnar. Liðið hefur skorað 15 mörk en ekkert lið hefur skorað fleiri mörk í deildinni fram til þessa. ÍA hélt hreinu í fyrsta sinn í sumar gegn Gróttu en liðið hefur fengið alls 8 mörk á sig í fyrstu 6 umferðunum.