Sólveig nýr félagsmálastjóri Hvalfjarðarsveitar – samstarfi við Akranes slitið



Samstarfi Akraneskaupstaðar og Hvalfjarðarsveitar um verkefni á sviði barnaverndar og félagsþjónustu verður ekki haldið áfram. Slíkt samstarf hefur verið til staðar í rúmt ár en um tilraunaverkefni var að ræða.

Í fundargerði bæjarráðs Akraness kemur fram að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hafnað tilboði Akraneskaupstaðar um verkefni á sviði barnarverndar og félagsþjónustu.

Samhliða tilboði Akraneskaupstaðar um áframhaldandi samstarf á sviði barnaverndar og félagsþjónustu bauð Akraneskaupstaðar tilteknar úfærslur á öðrum samstarfssamningum en því erindi var ekki svarað.

Á vef Hvalfjarðarsveitar kemur fram að vel hafi verið staðið að fagþjónustunni skv. samningnum en samtal um áframhaldandi samstarf hafi ekki borið árangur og mun Hvalfjarðarsveit því taka aftur við verkefnum og þjónustu í málaflokkunum frá og með 1. október 2020.

Hvalfjarðarsveit hefur ráðið Sólveigu Sigurðardóttur í 100% starf félagsmálastjóra til eins árs og er Sólveig nú þegar komin til starfa. Þetta kemur fram á vef Hvalfjarðarsveitar.

Sólveig hefur mikla reynslu af störfum í félagsþjónustu og barnavernd. Hún er með MA próf í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og hefur starfað í barnavernd og félagsþjónustu sveitarfélaga á Íslandi og í barnavernd og fjölskyldurétti í Svíþjóð. Sólveig er gift Njáli Vikari Smárasyni lækni og eiga þau þrjú börn saman. Fjölskyldan er búsett á Akranesi.