100 ferðir á Guðfinnuþúfu – Anna ætlar að endurtaka leikinn á næsta ári


Ég hef sett mér markmið að endurtaka þetta á næsta ári og vonandi hef ég heilsu í það verkefni,“ segir Anna Berglind Einarsdóttir sem nýverið náði takmarki sem hún setti sér í byrjun ársins 2020. Anna Berglind gekk 100 ferðir á Guðfinnuþúfu á Akrafjalli og segir hún að þessar gönguferðir hafi mikil og góð áhrif á heilsu hennar. 

Anna Berglind er ættuð úr Dölunum og kom hún á Akranes árið 1983 til þess að stunda nám við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þar hitti hún ungan Strandamann og frá þeim tíma hafa þau verið búsett á Akranesi. 

„Ég kom á Akranes til þess að stunda nám í Fjölbrautaskóla Akraness á Vesturlandi árið 1983. Þar kynntist ég manninum mínum, Samúel Ágústssyni, og við höfum verið búsett hér á Akranesi frá þeim tíma. Ég er fædd og uppalin vestur í Dölum, Rauðbarðaholti í Hvammssveit. Faðir minn var fæddur og uppalinn þar, en móðir mín er frá Merkigili í Skagafirði. Samúel er frá Norðurfirði á Ströndum. Á undanförnum níu árum hef ég starfað á skrifstofunni hjá Sjúkraþjálfun Georgs.“

Fórum „Alla leið“ með Ferðafélagi Íslands  

Anna og Samúel á toppnum.

„Áhugi okkar hjóna á útivist hefur alltaf verið til staðar og fjallgöngur koma þar sterkt inn. Við höfum alltaf verið að ganga á fjöll en árið 2016 má segja að við höfum farið enn lengra á því sviði. Þá fórum við að ganga með hópum og leiðsögufólki frá Ferðafélagi Íslands. Við höfum gengið með hópnum ,,Alla leið“ undir leiðsögn Hjalta Björnssonar fararstjóra.

Þessar ferðir eru vor og haustverkefni. Þá er gengið á fjöll á mánudögum og laugardögum aðra hvora viku. Þessi undirbúningur endar síðan á langri ferð á einhvern jökul.

Okkur þykir þetta virkilega skemmtilegt og í þessum ferðum kynnist maður nýju fólki sem er með sama áhugamál.“ 

Anna og Samúel hafa farið víða með fjallahópnum, á marga tinda og mörg fjöll og þar á meðal á hæsta tind Íslands. 

„Þar ber helst að nefna Hvannadalshnjúk, Hrútsfjallstinda, Birnudalstind, Eyjafjallajökul, Snæfell, og Heklu. Hér í nærumhverfinu mætti nefna Hafnarfjall, Heiðarhorn, Hvalfell, Þyrill, og síðast en ekki síst Háihnúkur og Geirmundartindur.“

Akrafjallið er fallegur staður

Akrafjallið er að mati Önnu vel þess fallið að nota til æfinga á milli annarra gangna.  

„Mér finnst Akrafjallið vera virkilega fallegur staður. Ég setti mér það markmið í byrjun janúar að ganga 100 ferðir á Guðfinnuþúfu á árinu, og þeim áfanga náði ég þann 1. nóvember. Ein af ástæðunum fyrir því að ég fer svona oft er að ég hef lengi verið með vefjagigt. Til að halda einkennum i lágmarki þá finnst mér best að fara í göngu, vera á hreyfingu og þá fer ég í fjallið góða. Þessar gönguferðir hafa hjálpað mér, og þetta var líka áskorun á sjálfa mig hvort mér tækist þetta“

Anna segir að hún hafi farið á öllum tímum dagsins í þessar ferðir á Guðfinnuþúfu.

„Ég fór stundum kl. 6 að morgni áður en ég fór í vinnu eða eftir vinnu síðdegis. Samúel fór mjög oft með mér. Hann fékk hinsvegar í bakið í lok apríl og var nánast úr leik á tímabili. Ég var því mikið ein á ferðinni á Guðfinnuþúfuna. Ég elska að fara í göngu á fjallið, það er í mínum huga aldrei eins. Ég hef tekið mikið af myndum sem sýna hvað veðrið og útsýnið geta verið breytileg og misjöfn. Fjallið hefur alltaf sinn sjarma, hvort sem það er snjór, rok, rigning eða sól,“ segir Anna Berglind Einarsdóttir.