GrasTec sagði upp samningnum við Golfklúbbinn Leyni

Fyrirtækið GrasTec ehf – sem er í eigu Brynjars Sæmundssonar hefur sagt upp samningi sínum við Golfklúbbinn Leyni. Fyrirtækið hefur frá árinu 2013 verið með samning við Leyni og hefur Brynjar sinnt starfi vallarstjóra sem verktaki samhliða öðrum störfum sínum hjá GrasTec.

Brynjar var fyrsti framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Leyni en hann gegndi því starfi samhliða því að vera vallarstjóri á árinu 1997-2007. Á þessum árum var gríðarleg uppbygging á golfvallarsvæðinu og völlurinn var stækkaður úr 11 holum í 18 sumarið 2000.

Hann kom síðan aftur að rekstri golfvallarins í gegnum fyrirtækið GrasTec árið 2013. Brynjar hefur því komið við sögu í fjölmörgum nýframkvæmdum og viðhaldsvinnu á Garðavelli allt frá árinu 1997. Í tilkynningu frá Golfklúbbnum Leyni er Brynjari þakkað fyrir gott samstarf á liðnum árum.

Þó leiðir okkar skilji á þessum vettvangi mun Leynir eflaust eiga áfram góð viðskipti við GrasTec í framtíðinni. 

Fjallað var um málið á fundi stjórnar þann 18. janúar s.l. og er stjórn Leynis að meta hvaða skref verða tekin varðandi stöðu vallarstjóra á Garðavelli.