Fjárfestir og hóteleigandi sýnir því áhuga að byggja hótel við golfvöllinn

Snorri Hjaltason, byggingaverktaki og fjárfestir, sem á m.a. B59 hótelið glæsilega í Borgarnesi hefur sýnt því áhuga að byggja hótel á Akranesi. Snorri hefur m.a. rætt slíkar hugmyndir við forráðamenn Golfklúbbsins Leynis og við nefndarmenn í skipulags – og umhverfisráði Akraneskaupstaðar.

Hótelbyggingar hafa verið til umræðu í mörg ár á Akranesi en fyrirhuguðum byggingareit fyrir hótel á „Fólksbílareitnum“ við Kirkjubraut hefur verið breytt í byggingarreit fyrir fjölbýli og verslanir.

Rakel Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Leynis og Snorri ræddu hugmyndir um hótelbyggingu á deiliskipulagssvæði Garðavallar á síðasta fundi skipulags – og umhverfisráðs. Á fundinum var farið yfir mögulegar staðsetningar á hótelbyggingu við golfvöllinn á Akranesi.

Rakel segir í samtali við Skagafréttir að hugmyndir um hótelbyggingu við golfvallarsvæðið hafi verið á umræðustigi í um eitt ár.

„Covid ástandið hefur haldið aftur af okkur en nú erum við farin að sjá að það er hægt að taka næstu skref. Heimsókn okkar Snorra snérist um að viðra þá möguleika sem eru í stöðunni. Í lok síðasta árs var byggingarreitur fyrir hótel felldur út í deiliskipulagi Garðalundar – og Skógarhverfis. Við erum að skoða möguleika varðandi aðrar staðsetningar innan deiliskipulags golfvallarsvæðisins. Málið er á umræðustigi og mikilvægt að velta við öllum steinum í þeim efnum en áhuginn er til staðar að byggja hótel við Garðavöll,“ segir Rakel við Skagafréttir.

Eins og áður segir hafa hugmyndir um hótelbyggingu við Garðavöll verið lengi í umræðunni. Árið 2006 voru kynntar hugmyndir að 40 herbergja hóteli sem einkaaðilar höfðu hug á að byggja meðfram 1. braut vallarins og rétt við Garðalund. Fjallað var um málið í lok desember 2007 í Morgunblaðinu en á þeim tíma áttu framkvæmdir að hefjast vorið 2008.

Smelltu á myndina til að lesa greinina úr Morgunblaðinu 2007.