Bjarni Ólafsson AK landaði fyrsta kolmunnafarminum í Neskaupstað

Áhöfnin á Bjarna Ólafssyni AK landaði í gær í Neskaupstað fyrsta kolmunnafarminum eftir að veiðar hófust nýverið á gráa svæðinu suður af Færeyjum. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Runólfur Runólfsson skipstjóri segir í viðtali á vef Síldarvinnslunnar veiðin hafi verið góð.

„Það er í reynd búin að vera fínasta veiði og skipin voru að hífa gott í morgun. Það mun hins vegar vera einhver kaldaskítur á miðunum núna. Við erum með 1700 tonn sem fengust í þremur holum. Í hvert sinn var dregið í 14-19 tíma. Það er býsna þröngt á miðunum þarna og veiðin fer fram á takmörkuðu svæði. Þarna er íslenski flotinn og færeysk skip og auk þess einir 20 Rússar,“ segir Runólfur.