Batamerki á Skagaliðinu í markalausu jafntefli gegn Stjörnunni

Karlalið ÍA mætti liði Stjörnunnar í 4. umferð PepsiMax deildarinnar í knattspyrnu í gær á Norðurálsvellinum á Akranesi.

Töluverður fjöldi áhorfenda var á leiknum og greinilegt að stuðningsmenn fagna því að fá tækifæri til þess að mæta á völlinn og styðja sitt lið. Leikurinn fór fram við ágætar aðstæður, en hitastigið var ekki hátt, og norðanáttin gerði leikmönnum stundum erfitt fyrir.

Leikmenn ÍA náðu að stilla saman strengi sína eftir höggið sem liðið fékk gegn FH í 3. umferð – þar sem að tveir af lykilmönnum ÍA meiddust illa. ÍA og Stjarnan voru bæði með 1 stig eftir fyrstu þrjár umferðirnar og leikurinn í gær var því afar mikilvægur fyrir bæði liðin.

Þrátt fyrir fjölmörg færi í leiknum náðu leikmenn beggja liða ekki að koma boltanum í netið. Markalaust jafntefli niðurstaðan og fjölmargir áhugaverðir leikir framundan hjá liðinu.

Tveir leikmenn léku sinn fyrsta leik með ÍA í efstu deild í gær, markvörðurinn Dino Hodzic, og danski framherjinn Morten Beck. Eins og áður segir átti ÍA töluvert af færum í leiknum og vinnusemi leikmanna var til fyrirmyndar. Liðið hélt marki sínu hreinu í fyrsta sinn á tímabilinu í PepsiMax deildinni og margt jákvætt var í leik liðsins þrátt fyrir erfiða byrjun á tímabilinu.

Næsti heimaleikur ÍA er gegn liði Breiðabliks þann 24. maí en áður en þeim leik kemur mun ÍA leika í Kórnum í Kópavogi þann 21. maí gegn HK. Þann 30. maí mætir ÍA liði KR á útivelli.