Hægst mjög á kolmunnaveiðinni hjá Bjarna Ólafssyni AK

Það hefur hægst mjög á kolmunnaveiðinni suður af Færeyjum að undanförnu. Bjarni Ólafsson AK landaði 1.770 tonnum á Seyðisfirði sl. sunnudag og hefur lokið veiðum að sinni. Skagamaðurinn Runólfur Runólfsson skipstjóri á Bjarna Ólafssyni segir að næst á dagskrá hjá áhöfninni sé að leita að makríl í júní. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

Þar er rætt við Runólf Runólfsson skipstjóra:

„Það hefur dregið verulega úr veiðinni að undanförnu og nú erum við hættir í bili. Báturinn er að fara í slipp og verður þar í einar þrjár vikur. Það á að taka upp gírinn og svo á að mála bátinn og gera hann fínan. Kolmunnaveiðin hófst um miðjan apríl og gekk vel framan af en það hefur þó verið erfitt að veiða þarna. Veður hefur oft verið óhagstætt og þarna hafa verið mikilir straumar sem ekki hafa auðveldað veiðarnar. Auðvitað hefur komið ágætis veður inn á milli en það hefur alltof oft verið hundleiðinlegt. Næst á dagskrá hjá okkur er makríllinn. Ég hef heyrt að farið verði snemma að leita að makríl. Ef ég man rétt var haldið til makrílveiða í fyrra um 20. júní. Ætli verði ekki farið um svipað leyti í ár,“ segir Runólfur.

Hákon EA kom til Neskaupstaðar í gær með 1.740 tonn af kolmunna og Beitir NK kom til Seyðisfjarðar sl. nótt með 1.900 tonn. Börkur NK er á landleið með 2.250 tonn.