ReyCup meistarar og liðsmynd með forseta Íslands – frábært mót hjá leikmönnum ÍA


Leikmenn úr 3. flokki ÍA í knattspyrnu skemmtu sér konunglega á Alþjóðlega knattspyrnumótinu ReyCup sem fram fór í Reykjavík um liðna helgi. Mótið var haldið í 20. sinn en ReyCup er eitt fjölmennasta knattspyrnumót sem haldið er á Íslandi árlega.

Leikmenn ÍA gerðu sér lítið fyrir og stóðu uppi sem ReyCup meistarar í 3. flokki en úrslitin réðust á sjálfum þjóðarleikvanginum á Laugardalsvelli þar sem að Skagamenn höfðu stáltaugar í vítaspyrnukeppninni sem réði úrslitum.

Eitt af liðum ÍA á mótinu úr 3. flokki fékk heimsókn frá sjálfum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, sem var laufléttur þegar hann var með strákunum á liðsmynd eins og sjá má hér fyrir neðan.