Björgunarfélag Akraness treystir á Skagamenn

Eigum við ekki að segja að ég hafi mjög gaman að þessu – ég er flugeldanörd. Þetta er 16. árið sem ég kem að þessu verkefni þetta er í tíunda skipti þar sem ég er í forsvari fyrir innkaupum á vörum til okkar,“ segir Gísli Sigurjón Þráinsson hjá Björgunarfélagi Akraness en árleg flugeldasala félagsins hófst í gær á Kalmannsvöllum 2. „Ég legg áherslu á þrennt við okkar viðskiptavini, notið öryggisglerugu, hanska og verið edrú þegar þið fagnið áramótunum með flugeldum frá okkur. Þá verður þetta frábært kvöld,“ segir Gísli í samtali við skagafrettir.is.

Fjölmennur hópur sjálfboðaliða úr Björgunarfélaginu á Akranesi leggur mikla vinnu á sig við flugeldasöluna enda er um að ræða langstærsta tekjupóst félagsins.

Notið öryggisglerugu, hanska og verið edrú

„Árið 2016 verður eftirminnilegt því það hefur verið mikið að gerast hjá félagsmönnum. Sala á flugeldum – og Neyðarkallinum eru stærstu tekjupóstarnir, en við duttum líka í lukkupottinn fyrr á árinu þegar fengum verkefni við kvikmyndina Fast & Furios 8. Þar vorum með mannskap á vakt í um 5 vikur. Við sáum um alla öryggisgæslu á meðan leikmyndin var sett upp og það verkefni gaf góðar tekjur til félagsins. Það voru kannski um 30 manns frá okkur í þessu verkefni,“ segir Gísli en starfssemi Björgunarfélagsins er umfangsmikil og hefur vaxið með hverju árinu sem líður.

img_3039

Öryggið er í hávegum haft hjá Björgunarfélaginu á Akranesi, flugeldasalan er í sama húsnæði og Slökkvilið Akraness, en Gísli segir að það sé lítil hætta á ferð þrátt fyrir mikið púðurmagn í húsinu um þessar mundir.

„Við hófum söluna samkvæmt venju þann 28. desember. Langstærsti dagurinn er Gamlársdagur en síðan opnum við aftur 5. og 6. janúar. Mér líður bara vel hérna, varan sem við erum að selja verður alltaf betri og betri með hverju árinu sem líður. Þessu er pakkað vel og við förum varlega.“

Í ár verður í síðasta sinn sem stærstu „terturnar“ verða til sölu hér á landi. Gísli útskýrir í stuttu máli hvaða breyting mun eiga sér stað.

„Það sem er að gerast er að stóru terturnar verða ekki leyfðar eftir 15. janúar á næsta ári. Reglugerðin um CE vottun tekur þá gildi, og þar með verður hámark 1. kg. af púðri í hverri vöru leyft. Stærstu vörurnar í dag eru með rúmlega 3,2 kg. af púðri. Það sem gerist á næsta ári er að uppskriftunum af okkar vörum verður breytt, púðurmagnið verður samkvæmt CE vottunarreglugerðinni, það þýðir t.d. færri skot í hverri tertu. Það verður farið í það verkefni strax í byrjun næsta árs. Þetta verður samt alvöru dæmi líkt og hefur verið áður – bara minna magn af púðri.“

Kappatertur hafa á undanförnum árum

verið vinsælar

Gísli segir að svokallaðar „Kappatertur“ hafi á undanförnum árum verið vinsælasta varan hjá Björgunarfélaginu á Akranesi og telur Gísli að svo verði áfram. „

Við erum með fimm nýjar „Kappatertur“ og í fyrra komu einnig nýjar gerðir í þeirri vöru. Karlar eru í meirihluta þeirra sem koma til okkar en vissulega eru líka konur sem hafa mikinn áhuga á þessu og þekkingu. Við erum með mjög breiða vörulínu þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það eru tertur hérna sem kosta um 3000 kr. og þær eru mjög góðar og síðan er hægt að fara alla leið í þessu og kaupa tertur sem eru risastórar. Það er mikið um að fjölskyldur sameinist í þessum kaupum og áhuginn er mikill hjá mörgum. Við seljum engum undir 16 ára aldri enda er það bannað samkvæmt lögum. Áreitið hefur því minnkað hvað varðar aðila sem eru að sprengja mikið á milli jóla og nýárs – sem er góð þróun.“

Kappaterturnar hafa notið vinsælda á undanförnum árum.
Kappaterturnar hafa notið vinsælda á undanförnum árum.

Eins og áður segir er Gísli mikill áhugamaður um flugelda en hann er í hópi hjá Landsbjörg sem stýrir vöruúrvalinu í flugeldasölunni.

„Ég hef farið tvívegis til Kína til að skoða vörur og tekið þátt í innkaupum fyrir Landsbjörgu. Það sem kom mér mest á óvart í heimsóknum okkar til Kína er hversu mikil áhersla er lögð á öryggi í framleiðsluferlinu. Nánast allt gert utandyra ef það er hægt, mörg hundruð metrar á milli bygginga, og verksmiðjurnar eru á gríðarlega stóru svæði til þess að hægt sé að uppfylla öryggiskröfur. Það má aðeins vinna með ákveðið magn af púðri á hverjum tíma og allskonar slíkir hlutir komu mér á óvart í þessum heimsóknum – ég hafði aðra sýn á þetta áður en ég fór að kynna mér framleiðsluna. Ísland hefur sérstöðu þar sem það má selja til almennings en yfirleitt eru flugeldar aðeins seldir til fagaðila sem eru að sjá um flugeldasýningar og slíkt. Það er risastór markaður. Ég held að til lengri tíma litið þá verði meira um það á Íslandi, að aðilar fái fagfólk til þess að búa til glæsilegar flugeldasýningar,“ sagði Gísli að lokum við skagafrettir.is

15723693_1201961949840051_5168398552359790896_o

img_3052