Hjalti óskar eftir stuðningi Skagamanna í lokaverkefni sínu í Kenýa

„Við erum hér þrír útskriftarnemar í Kaupmannahöfn sem ætlum að fara til Kiberia í Kenýa í Afríku. Þar er markmiðið að tengja skóla og heilsugæslustöðvar við internetið. Og auka þar með möguleika fólks að fá atvinnu,“ segir Skagamaðurinn Hjalti Heiðar Jónsson við skagafrettir.is.

Verkefnið í Kenýa hjá Hjalta er hluti af lokaverkefni hópsins við Copenhagen School of Design and Technology í Danmörku.

„Fyrsta skrefið er að fara með internetbúnað (routera) og setja upp á svæðinu. Til þess að koma þessu í verk höfum við sett af stað hópfjáröflun þar sem að einstaklingar og fyrirtæki geta lagt okkur lið,“ segir Hjalti.

Nánar má lesa um fjáröflunina með því að smella hér

„Þetta er skemmtilegt verkefni og vonandi sjá einhverjir sér fært um að styðja við bakið á okkur í þessu,“ segir Hjalti en hann er fæddur í Gautaborg í Svíþjóð 23. mars árið 1987.

Foreldrar hans eru Skagamennirnir Jón Allansson og Heiðrún Janusardóttir.

„Ég bjó í Svíþjóð til fimm ára aldurs á meðan foreldrar mínir voru að ljúka námi. Þaðan fórum við Hafnarfjarðar en árið 1996 fluttumst við á Skagann þegar pabbi tók við Byggðasafninu á Görðum,“ segir Hjalti en hann stundaði nám við Brekkubæjarskóla en flutti til Kaupmannahafnar í byrjun ársins 2009. „Ég bý með kærustunni minni Miu Linneu Jørgensen í Köben og við eigum 7 mánaða gamla dóttur, Björk Linneu Hjaltadóttur,“ segir Hjalti en hann leggur áherslu á að hann sé glerharður Skagamaður þrátt fyrir að hafa búið jafnlengi erlendis og heimafyrir.

17776598_10212293647077707_1126414986_o
17779104_10212293645837676_1252213841_o