Í gær lést á Landspítala við Hringbraut, Magnús Oddsson, fyrrverandi bæjar- og veitustjóri á Akranesi. Hann sinnti fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum, meðal annars formaður Íþróttabandalags Akraness (ÍA) í 8 ár og varaforseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) í 5 ár. Hann var heiðursfélagi í báðum félögum.
Við hér á skagafrettir.is sendir fjölskyldu og aðstandendum Magnúsar samúðarkveðjur.
Magnús fæddist 17. nóvember 1935 og ólst upp í Reykjavík. Fyrstu uppvaxtarárin bjó hann í húsi foreldra sinna við Hörpugötuna rétt við flugvöllinn. Í stríðinu var húsið rifið að kröfu breska hernámsliðsins og flugvöllurinn stækkaður. Síðar flutti fjölskyldan í Laugarneshverfið og átti Magnús þar heima til fullorðinsára.
Að loknu námi í Laugarnesskólanum fór Magnús í Kvöldskóla KFUM og Iðnskólann í Reykjavík, jafnframt því sem hann lærði rafvirkjun hjá Vilberg Guðmundssyni í Segli. Síðan stundaði hann framhaldsnám í Rafmagnsdeild Vélskóla Íslands og rafmagnstækninám í Tækniskóla Kaupmannahafnar og tók lokapróf í mars 1964. Nám í rekstrar- og viðskiptagreinum tók hann í Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 1992 – 1994.
Magnús starfaði á háspennuverkstæði og á verkfræðideild Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Hann kenndi um skeið rafmagnsfræði í Vélskóla Íslands og starfaði hjá Raftækjasmiðju Ólafs Tryggvasonar.
Árið 1968 réðist hann sem rafveitustjóri til Rafveitu Akraness og gegndi því starfi til 1974. Þá var hann ráðinn bæjarstjóri á Akranesi næstu 4 árin og endurráðinn 1978-´82. Síðan tók hann aftur við starfi rafveitustjóra og gegndi því til 1995. Sem bæjarstjóri vann hann að ýmsum framfaramálum Akurnesinga, s.s.: Stofnun hitaveitu, en flest hús voru þá kynnt með olíu; byggingu grjótvarnargarðs fyrir framan hafnargarðinn, en hreyfing sjávar var mikill í höfninni; endurbótum á vatnsveitunni, en vatn var bæði of lítið og uppfyllti ekki gæðakröfur og stofnun Fjölbrautaskóla, en hann hafði verið í nefnd er fjallaði um framhaldsnám undir forystu Þorvaldar Þorvaldssonar. Árið 1995 var hann ráðinn veitustjóri Akranesveitu, sem var þá nýstofnuð og gegndi hann jafnframt starfi framkvæmdastjóra Andakilsárvirkjunar og Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar. Þessum störfum gegndi Magnús fram á árið 2000.
Magnús fór í Leiðsöguskólann í Kópavogi og starfaði sem leiðsögumaður á árunum 2002-2013 aðallega með danska hópa. Hann og Svandís kona hans hafa ferðast talsvert innanlands og utan m.a. gengið um Hornstrandir og Öskjuveginn. Í ferð sinni til Austurlanda nær 1967 lentu þau í „ 6 daga stríðinu“ og voru kyrrsett í Amman í Jórdaníu meðan á stríðinu stóð.
Magnús starfaði mikið í íþróttahreyfingunni. Var formaður ÍA í 1984-1992 og varaforseti ÍSÍ í 1992-1997. Var heiðursfélagi bæði í ÍA og ÍSÍ.
Hann átti sæti í fjölda nefnda og gegndi fjölbreyttum trúnðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna og Akraneskaupstað.
Þau hjónin voru virk í starfi Norræna félagsins á Akranesi um árabil en Svandís var formaður félagsins í nokkur ár. Þau heimsóttu alla vinabæi Akraness og tóku þátt í mörgum vinabæjamótum. Á yngri árum starfaði Magnús í KFUM bæði í Laugarneshverfinu og í sumarbúðunum í Vatnaskógi.
Magnús var félagi í Oddfellowreglunni og Gídeonfélaginu og stjórnarmaður í Sóknarnefnd Akraneskirkju. Hann var í nokkur ár formaður Orkusenatsins, sem er félag fyrrverandi starfsmanna orkufyrirtækja sem hafa unnið í tengslum við Samorku, samtök veitufyrirtækja.
Síðustu árin dvöldu þau hjónin oft í sumarbústað sem þau eiga í Biskupstungunum. Þá var samvera með fjölskyldunni þeim mjög kær.
Eftirlifandi eiginkona Magnúar er Svandís Pétursdóttir f. 1.2.1941, f.v. sérkennari. Þau giftu sig 7. ágúst 1965. Svandís er dóttir Péturs Ágústar Árnasonar, sjómanns og verkamanns í Reykjavík og konu hans, Helgu Jónsdóttur frá Tungufelli í Hrunamannahreppi.
Sonur Svandísar og Magnúsar er: Pétur Magnússon f.16.2.´71, forstjóri Hrafnistuheimilanna. Kona hans er Ingibjörg Eydís Ingimarsdóttir f. 30.8.´73, hjúkrunarfræðingur. Börn þeirra eru: Ágúst Logi f. 24.6.1996; Magnús Árni f. 25.1.2003 og Svandís Erla f. 8.3.2011.
Systur Magnúsar eru: Sigríður Oddsdóttir Malmberg f. 10.3.1932 og Ólöf Jóna Oddsdóttir f. 4.10.1944.
Foreldrar Magnúsar voru Oddur Erik Ólafsson verkstjóri hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur; f.17.3.1905, d. 16.6.1977 og kona hans, Guðný Maren Oddsdóttir, húsfreyja f. 26.6.1909, d. 1.3.2010.