Svona lítur ferjan út – áætlað að siglingar hefjast í byrjun júní

Sæferðir hafa samið við norskt fyrirtæki um leigu á farþegaferjunni Tedno vegna fyrirhugaðra ferjusiglinga á milli Akraness og Reykjavíkur í sumar. Á kynningarfundi sem fram fór s.l. föstudag á Akranesi sögðu Gunnlaugur Grettisson framkvæmdastjóri Sæferða og Ólafur William Hand upplýsinga- og markaðsstjóri Eimskipa frá helstu staðreyndum í þessum verkefni.

Ferjan sem hefur verið leigð í þetta verkefni heitir Tedno, smíðuð árið 2007 og er frá Noregi. Ferjan er 22,5 metrar á lengd og tekur 112 farþega. Tedno getur siglt á 35 hnúta hraða en áætlað er að sigla Tedno á 25 hnúta hraða. Það ætti því að taka um hálftíma að sigla á milli Akraness og Reykjavíkur. Til samanburðar var Akraborginni siglt á um 11 hnúta hraða og var Akraborgin eina klukkustund að sigla á milli Akraness og Reykjavíkur.

Á skessuhorn.is kemur fram að siglingastofnun Norðmanna eigi eftir að gefa leyfi til þess að skipið verði leigt til Íslands. Tímasetningin á fyrstu ferð Tedno er því ekki ljós. Gunnlaugur sagði á fundinum að vonir stæðu til að siglingar hæfust í byrjun júní.

Fram kom á fundinum að fyrsta ferð færi úr Reykjavík kl. 6.30 að morgni og fyrsta ferð frá Akranesi væri á dagskrá kl. 7.00. Nánari útfærsla á skipaferðum Tedno verður birt þegar að því kemur. Hugmyndin er að það kosti svipað í ferjuna og ferð með Strætó og það hefur komið til tals að samstarf verði á milli Sæferða og Strætó með skiptimiða og slíkt.