Langisandur er í sérflokki á Íslandi

Ein af perlum Akraness, Langisandur, skartar bláum fána sem er tákn um góða umhverfisstjórnun. Bláfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki og er þetta í fimmta sinn sem fáninn er dreginn að húni við Langasand. Baðströndin Langisandur þarf að uppfylla 32 skilyrði sem lúta að vatnsgæðum, umhverfisstjórnun, upplýsingagjöf og öryggi. Frá þessu er greint á vefnum akranes.is.

Salome Hallfreðsdóttir verkefnastjóri frá Landvernd afhenti Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra fánann – að viðstöddum m.a. fjölda barna frá leikskólunum Akra-, Garða- og Vallarseli

Aðeins þrjár baðstrendur við Ísland hafa fengið þessa viðurkenningu, Bláa Lónið, Nauthólsvík og Langisandur. Sérstaða Langasands er að þar er um að ræða náttúrulega strönd.

Akraneskaupstaður tekur sýni úr sjónum reglulega og hafa þau komið mjög vel út.