Öruggur sigur Skagamanna í Vesturlandsrimmunni í Útsvar

Akranes er komið í 2. umferð í spurningaþættinum Útsvar eftir 74-31 sigur gegn liði Snæfellsbæjar í 1. umferð í gærkvöld. Eins og lokatölurnar gefa til kynna var sigurinn aldrei í hættu.

„Við erum bara spennt að komast aftur af stað. Það eru ýmsar breytingar á þættinum og við búumst við nýrri upplifun,“ sagði Örn Arnarson einn af þremur liðsmönnum Útsvarsliðs Akraness fyrir keppnina við skagafrettir.is.

Akranes komst í úrslit í keppninni s.l. vetur og er liðið skipað sömu einstaklingunum. Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir og Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir eru með Erni í liðinu sem keppti til úrslita síðast gegn Fjarðabyggð.

„Við hvetjum okkar stuðningsmenn að vera duglegt á Twitter og hjálpa okkur með þeim hætti,“ bætir Örn við en æfingar liðsins lágu að mestu niðri í sumar og er það kallað endurheimt hjá afreksíþróttafólki.

„Það gafst vel síðast að fara í hvern þátt með litlar væntingar og þannig verður það áfram. Við vonum að sjálfsögðu að gengið verði gott en lofum engu þar um. Það sem skiptir mestu máli er að við skemmtum okkur vel og þá vonandi öðrum í leiðinni. Og verðum bæjarfélaginu til sóma,“ sagði Örn Arnarson við skagafrettir.is