„Á Sigurslóð“ er tileinkuð minningu Helga Dan

Nýverið setti Jón Gunnlaugsson í loftið fésbókarsíðuna Á Sigurslóð sem hann tileinkar Helga Daníelssyni en frumherjastarf „Helga Dan“ er grunnurinn að þeirri vinnu sem Jón hefur verið með í höndunum á s.l. 45 árum.

„Ástæða þess að við gerðum þessa síðu var löngun mín að koma á framfæri ýmsu um knattspyrnuna á Akranesi og um leið að hafa vettvang til skoðanaskipta um ýmislegt sem varðar knattspyrnu almennt,“ segir Jón Gunnlaugsson í samtali við skagafrettir.is.

„Þessi síða er fyrir knattspyrnuáhugafólk og ég hef áhuga á að setja inn áhugaverða pistla og skapa umræður. Eins að rifja upp sitthvað sem ég hef upplifað á löngum ferli mínum, tengdum knattspyrnu. Mér finnst umræðan um t.d knattspyrnuna endurspegla aðeins nokkur síðustu ár m.a í þeim fjölmiðlum sem mikið fjalla um knattspyrnu. Þeir eru jafnvel að bera saman ýmsa þætti meðal annars samanburð milli manna og ára án þess að kanna efnið niður í kjölinn. Þeir taka sjaldnast með í umræðuna það sem gerðist á árum áður, en það er oft áhugaverður samanburður,“ bætir Jón við en hann hefur með markvissum hætti haldið utan um sögu knattspyrnunnar á Akranesi í hartnær hálfa öld.

 



„Ég fékk ungur áhuga á sögunni og hef haldið utan um knattspyrnusöguna hér á Akranesi í 45 ár. Mér fannst áhugavert hversu miklu var áorkað í okkar litla bæ. Það er þó bara lítill hluti þess sem síðar kom. Saga gamla gullaldarliðsins heillaði mig sérstaklega.“

Jón byrjaði að safna ýmsu efni árið 1972 og mesta vinnan fólst í því að reyna að ná utan um liðskipanir í einstökum leikjum.

„Mér fannst þá að ég væri kannski ekki rétti aðilinn í þetta, því þá var minn knattspyrnuferill nánast að byrja og í nógu að snúast. Þá kom Helgi Dan með fullan kassa af ýmsu efni frá liðinni tíð og taldi best að ég hefði þetta hjá mér. Þarna hófst áhugi minn á þessu verkefni fyrir alvöru sem ég hef haldið úti síðan. Mér finnst því að það fari vel á því að tileinka Helga Daníelssyni þessa síðu, því frumherjastarf hans í þessu er grunnur sögunnar,“ bætir Jón við en árið 1972 hafði Akranesliðið leikið rösklega 400 leiki og skorað um 1000 mörk í þeim leikjum. Í dag eru leikirnir um 2100 og mörkin komin yfir 4500.

„Liðsskipan í öllum þessum leikjum er til og okkur vantar aðeins 50 mörk til að hafa  alla markaskorararana. Þetta er orðið mikið efni og síðan hefur verið unnin ýmis tölfræði um ólíka þætti sem getur verið mjög áhugavert. Sögur í kringum þessa leiki eru ótal margar og margt hefur verið skrifað og útfært á ýmsa máta á löngum tíma . Gefnar hafa verið út bækur, myndbönd og fleira. Samt er enn af nægu að taka og þessi síða er til þess ætluð að koma þessu efni á framfæri og skap umræðu,“ sagði Jón Gunnlaugsson við skagafrettir.is.