Berglind stjórnaði fyrstu giftingunni í Akranesvita

Akranesvitinn var í aðalhlutverki í dag þegar Berglind Helgadóttir fulltrúi sýslumannsins á Akranesi gaf saman enska parið Oliver Konzeove og Sophie Bright.

Vitavörður Akranesvitans, Hilmar Sigvaldason, greindi frá þessari óvæntu heimsókn – en þetta er í fyrsta sinn sem brúðhjón eru gefin saman á toppi vitans. Sagan á bak við þessa heimsókn er skemmtileg þar sem að brúðguminn villtist á vitum.

„Oliver Konzeove gaf mér þá skýringu að hann hefði séð myndband með tónlistarmönnunum Ólafi Arnalds og Nönnu Bryndísi úr Of Monsters And Men. Myndbandið átti að hafa verið tekið upp í Akranesvitanum en hið rétta er að það var tekið upp í Garðskagavitanum,“ segir Hilmar í samtali við skagafrettir.is.

„Það breytti því ekki að þau voru gefin saman í smá roki hér á Skaganum í dag. Þetta er í fyrsta skipti sem slík athöfn hefur farið fram á toppi Akranesvitans. Áður er búið að gefa hjón saman í fjörunni fyrir framan vitann, inni í vitanum og einnig fyrir framan Gamla vitann. Þau skötuhjúin ásamt þeirra gestum ætluðu svo að fara á Iceland Airwaves hátíðina og voru að vonast til að hitta á Ólaf Arnalds,“ bætti Hilmar við.

Við hér á skagafrettir.is óskum brúðhjónunum ensku til hamingju með daginn og það verða án efa fleiri sem eiga eftir að nýta sér Akransvitann í þessum erindagjörðum á næstu misserum.

Hér má sjá myndbandið sem Oliver Konzeove taldi vera tekið upp við Akranesvitann.

Og hér er hitt myndbandið sem ruglaði Oliver enn frekar í ríminu.