Fimleikamaður ársins: Valdís Eva Ingadóttir

Aðildarfélög ÍA hafa greint frá því hvaða einstaklingar koma til greina í kjörinu á Íþróttamanni Akraness 2017. Á næstu dögum verður stutt kynning á helstu afrekum íþróttafólksins úr hverri grein fyrir sig.

Á vef Akraneskaupstaðar geta íbúar Akraness tekið þátt í kjörinu og með því að smella hér þá getur þú tekið þátt:

Valdís Eva Ingadóttir er fædd árið 2002 og æfir fimleika með Fimleikafélagi Akraness. Valdís æfir hópfimleika með fyrsta flokki og meistaraflokki ÍA. Hún er okkar fremsta fimleikakona og voru tímamót hjá félaginu þegar hún sprengdi erfiðleikaskalann í keppni í vetur.

Valdís er dugleg, metnaðarfull og umfram allt hógvær. Hún er mikilvægur hlekkur í sínu liði og vel liðin af liðsfélögum og þjálfurum og er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins. Í vetur hefur Valdísi gengið gríðarlega vel á mótum og unnið til verðlauna með liðum meistaraflokks, fyrsta flokks og í einstaklingskeppni.

Á Bikarmóti WOW vann Valdís bikarmeistaratitil ásamt liði sínu þar sem stelpurnar settu persónulegt stigamet, á Íslandsmóti unglinga í vor lentu þær í þriðja sæti, á Haustmótinu í hópfimleikum keppti Valdís með liði meistaraflokks sem varð í fyrsta sæti. Hún vann til fyrstu verðlauna á einstaka áhöldum og samanlögðum árangri á einstaklingsmóti í Stökkfimi í haust. Valdís var á dögunum valin í 35 manna úrtak fyrir stúlknalandslið Íslands.

Helstu afrek Valdísar Evu á Íslandi á árinu

  • WOW bikarmeistari í fyrsta flokki B í hópfimleikum.
  • 3. sæti á Íslandsmóti Subway með fyrsta flokki B í hópfimleikum.
  • 1. sæti í opnum flokki 15 ára og yngri á haustmótinu í stökkfimi.
  • 1. sæti í meistaraflokk B á haustmótinu í hópfimleikum.Hvernig stendur Valdís Eva á landsvísu
  • Valdís er í úrtaki fyrir junior landslið Íslands í hópfimleikum sem keppir á Evrópumóti unglinga á næsta ári.

    Valdís Eva Ingadóttir.