Kór Akraneskirkju bauð upp á frábæra nýárstónleika sem fram fóru fyrir fullu húsi í Bíóhöllinni í gærkvöld.
Efnisskráin á tónleikunum var fjölbreytt þar sem þekkt dægurlög voru flutt ásamt nýju efni þar sem hinn kunni lagahöfundur hljómsveitarinnar ABBA, Benny Anderson, kom m.a. við sögu. Íslensku dægurlögin voru í útsetningum eftir Ríkarð Örn Pálsson, Magnús Ingimarsson og Jón Sigurðsson. Kórinn söng lög á borð við Söknuð, Ágústnótt, Bláu augun þín og fleiri þekkt lög.
Auður Guðjohnsen mezzosópran sá um einsöng og stjórnandi á tónleikunum var Guðmundur Óli Gunnarsson – skólastjóri Tónlistarskóla Akraness.
Eftir hlé var komið að aðalatriði tónleikanna, lagaflokkurinn Feel the spirit sem inniheldur sjö afrísk-ameríska söngva í útsetningu enska tónskáldsins John Rutter. Kammersveit sem skipuð var einvalaliði hljóðfæraleikara studdi vel við Kór Akraneskirkju á þessum tónleikum og kynnir kvöldsins var fjölmiðlakonan Margrét Blöndal sem er búsett á Akranesi.
Hér er myndasyrpa sem skagafrettir.is tók á tónleikunum í gær.