Lesbókin Café opnar á ný – „spennandi tímar framundan“

„Þetta var tækifæri sem ég vildi ekki láta renna mér úr greipum. Lesbókin Café býður upp á mikla möguleika fyrir mig, og ég tek við fínu búi af fyrri eigendum,“ segir Skagamaðurinn Steinþór Árnason sem hefur keypt kaffihúsið Lesbókin Café við Akratorg. Steinþór er þaulreyndur í veitingahúsarekstri og hann verður með marga bolta á lofti næstu misserin.

„Ég tók nýverið við skólaeldhúsinu í Grundaskóla og frá þeim tíma hafa hlutirnir gerst hratt. Ég mun sofa lítið næstu vikurnar en ég er staðráðinn í því að klára þessi verkefni með sóma. Akranes þarf á góðu kaffihúsi að halda og ég er á heimavelli þegar kemur að slíku enda er ég menntaður sem bakari. Hér á Lesbókin Café verða vissulega áherslubreytingar. Má þar nefna að hér verður úrval af  „boost“ drykkjum og hollum samlokum. Hér verður einnig að finna þetta hefðbundna sem var hér áður, kaffi, kökur, vöfflur og slíkt. Úrvalið á kökum verður eitthvað meira og ég bendi fólki á að fylgjast með okkur á fésbókinni.“

Lesbókin Café er með veitingaleyfi fyrir tæplega 30 manns og stefnir Steinþór á að fá leyfi fyrir um 50 manns. „Það þarf ekki mikið til að fá slíkt leyfi, salernismálin eru verkefnið sem þarf að leysa, og ég er vongóður um að það verði raunin. Ef það tekst þá get ég fjölgað borðum og stólum í salnum.“

Opnunartími Lesbókin Café verður meiri en áður að sögn Steinþórs. „Ég vil hafa opið frá 9 að morgni fram til 22 á kvöldin. Það er langtímamarkmiðið. Ég ætla að opna staðinn um næstu helgi, 12.-14. janúar, og síðan mun ég þróa þetta áfram í takt við þá stemningu sem myndast hérna.“

Eins og áður segir er Steinþór með marga bolta á lofti en hann er einnig veitingamaður í Vitakaffi og s.l. sumar sá hann um rekstur golfskálans hjá Golfklúbbnum Leyni.

„Ég keypti rekstur Vitakaffis á síðasta ári og í mars n.k. verður þeim stað breytt í írska krá, The Irish Pub, þar sem m.a. íþróttaviðburðir verða sýndir í sjónvarpi. Á The Irish Pub verður allt það sem einkennir slíkan stað og ég mun skipta um innréttingar á næstu vikum til að gera staðinn enn betri. U
m helgar verður líf og fjör á staðnum með ýmsum viðburðum. Matseðillinn á The Irish Pub verður kynntur þegar nær dregur opnun staðarins en ég er búinn að ráða matreiðslumann í vinnu – og hann byrjar um miðjan mars. Ef allt gengur upp þá gæti ég verið með þrjá staði í rekstri í sumar og það eru spennandi tímar framundan. Ég tel mig vera heppinn að fá þessi tækifæri og það er undir mér komið að vinna vel úr þessari stöðu,“ sagði Steinþór Árnason.

Christel Björg Rúdolfsdóttir Clothier og Guðleifur Rafn Einarsson voru áður eigendur Lesbókin Café en þau opnuðu staðinn í byrjun ársins 2017.