Þrýstihópur um vegbætur á Kjalarnesi stækkar ört

Þrýstihópur um tafarlausar vegbætur á Vesturlandsvegi um Kjalarnes var nýverið settur á laggirnar.  Bjarnheiður Hallsdóttir frá Akranesi er frumkvöðull í þesssu máli og nú þegar hafa rúmlega 3000 skráð sig í hópinn á fésbókinni.

Á fésbókarsíðunni, Til öryggis á Kjalarnesi, hafa skapast miklar umræður og er ljóst að þolinmæði Skagamanna er á þrotum. Boðað hefur verið til fundar þann 24. janúar n.k. þar sem að Sigurður Ingi Jóhannsson Samgönguráðherra verður á meðal fundargesta. Fundurinn fer fram í Tónbergi.

Það má búast við því að þrýstihópurinn láti vita af sér með táknrænum hætti á næstunni. Og hefur lokun á Vesturlandsveginum verið mikið rædd í hópnum. Þar hafa ýmsar hugmyndir verið viðraðar og er ljóst að fólk er tilbúið að leggja mikið á sig til þess að koma þessu máli á oddinn í umræðunni.


„Vegurinn um Kjalarnes er einn af þremur fjölfjörnustu vegum á Íslandi, en um hann aka að meðaltali 7.000 bifreiðar á dag, en allt að 14.000 bílum á sumrin (2017). Vegurinn hefur setið eftir í vegaúrbótum undanfarin ár og nú er svo komið að ástand hans er orðið alls óviðunandi og vegurinn stórhættulegur vegfarendum. Vegurinn um Kjalarnes er auk þess eina stofnæðin út frá Reykjavík, sem ekki hefur verið breikkuð. Á síðustu fjárlögum var framkvæmdafé til Vesturlandsvegar um Kjalarnes skorið niður og einu framkvæmdirnar sem eru fyrirhugaðar er að búa til hringtorg við Esjumela. Það er því skýlaus krafa okkar að þessi mikilvægi vegur verði tafarlaust færður ofar á forgangslista vegaframkvæmda og að ráðist verði í viðgerðir og breikkun strax,“ segir í færslu á fésbókarsíðu þrýstihópsins.