Heiðrún Jónsdóttir starfsmaður bæjarskrifstofu Akraness samdi þessa vísu sem Ólafur Adolfsson formaður bæjarráðs flutti í gær þegar Skagamaður ársins 2017 var útnefndur. Sigurður Elvar Þórólfsson ritstjóri skagafrettir.is er Skagamaður ársins 2017.

Við hér á skagafrettir.is þökkum kærlega fyrir hrósið og móttökurnar á fyrsta ári fréttavefsins. Þetta hvetur okkur áfram til góðra verka.

Vandi nokkur vera kann
að velja ársins Skagamann
en fyrst nú höfum fundið þann
formlega skal kynna hann

Er á Skaga upprunnið
ekta þar með teljum við
eintak þetta ómengað
ýmsir geta vottað það

Íþróttirnar iðka fór
afreka varð hugur stór.
Meðal annars menntun hlaut
margvíslega á þeirri braut

Býsna oft í brögðum snar
bolta skaut í körfurnar
en kempan vill nú kúlurnar
hverfa sjá í holurnar

Fréttamanns á ferlinum
formanns gengdi embættum
Golfsambandi góðu hjá
gagnlegt margt nú vinnur sá

Hollur sinni heimabyggð
henni sýnir mestu tryggð.
Skarpur dreifir skrifuðum
Skagafréttum jákvæðum.

Heiðrún Jónsdóttir.

Sem Skagamaður ársins fékk Sigurður Elvar glæsilega mynd eftir listamanninn Bjarna Þór Bjarnason sem má sjá hér fyrir neðan og veglegan blómvönd. Myndin er frá Garðavelli, golfvelli Skagamanna, og eru kylfingarnir staddir á 6. braut vallarins og Akrafjallið er glæsilegt í bakgrunni.