Vesturlandsvegur um Kjalarnes er eldheitt umræðuefni á kaffistofum á Akranesi þessa dagana. Á morgun, miðvikudaginn 24. janúar, er opinn fundur um samgöngumál í Tónbergi, sal Tónlistarskólans. Skagamenn eru hvattir til þess að skrá sig á fundinn og taka þátt í umræðunum um þetta mikilvæga mál.
Í dag gerðu skagafrettir.is óvísindalega könnun á dýpt hjólfara á þremur stöðum á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. Staðirnir voru valdir af handhófi eða réttara sagt – þar sem við gátum komið okkur fyrir með skömmum fyrirvara og án þess að skapa stórhættu á veginum. Við fengum góða ábendingu frá dyggum lesenda skagafrettir.is um að gera þetta og í dag tókum við slaginn. Myndirnar tók Axel Fannar Elvarsson.
Í stuttu máli sagt þá eru hjólförin í það minnsta tæplega 3 cm á dýpt eða 28 mm. við útskot þar sem vegaeftirlitið er með aðstöðu rétt við afleggjarann inn í Hvalfjörð.
Birkir Hrafn Jóakimsson skrifaði ritgerð um hjólför í íslensku malbiki í námi sínu í Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóli Íslands árið 2014.
Þar kemur m.a. fram að miðað sé við að leyfð hjólfaradýpt í malbiki sé 25 mm.
Þar er einnig sagt frá því að miðað við ársslit upp á tæpa 1.91 mm þá ætti endirtíminn á malbiki að vera tæplega 14 ár.
Hann bendir á í ritgerðinni að Svíar sé með mun strangari mörk og þar fá vegir ekki að vera með meira en 15 mm hjólfaradýpt.
Miðað við þessi gögn þá er hjólfaradýptin á þessum þremur stöðum tvöfalt á við það sem er leyfilegt í Svíþjóð og einnig töluvert yfir viðmiðunarmörkum á Íslandi.
Við fórum á tvo aðra staði á Kjalarnesinu, skammt frá Grundarhverfinu, og þar voru hjólförin 34 mm og 32 mm. Án efa eru einhverjar skekkjur í þessum mælingum, og hlutirnir gengu hratt fyrir sig þegar myndað var. Samt sem áður gefa þessar mælingar nokkuð góða mynd af stöðunni á þessum kafla.
IKEA hillustoðin sem notuð var sem réttskeið var fengin að láni úr kjallaranum á Bjarginu . Og við treystum því að tommustokkurinn úr Bresabúð sé hárnákvæmur.
Við höfum ekki hugmynd um hvort þessi hjólför séu undir eða yfir meðallagi á Íslandi. Það væri gaman að fá slíkar mælingar frá öðrum landshlutum. Á meðan engar aðrar upplýsingar liggja fyrir þá er þetta nýtt óstaðfest Íslandsmet í dýpt á hjólförum.
Opinn fundur um samgöngumál á Vesturlandi verður haldinn miðvikudaginn 24. janúar næstkomandi frá kl. 18:00 til 20:00 í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi. Fundarstjóri er Páll S. Brynjarsson
Dagskrá fundarins:
- 18.00 Rakel Óskarsdóttir bæjarfulltrúi á Akranesi setur fundinn
- 18.10 Eyjólfur Árni Rafnsson formaður starfshóps um möguleika á framkvæmdum á stofnleiðum í nágrenni Reykjavíkur og fjármögnun þeirra – Flýting vegframkvæmda og fjármögnun þeirra
- 18.30 Geirlaug Jóhannsdóttir sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð – Lífæð Vesturlands
- 18.50 Kristinn Jónasson bæjarstjóri í Snæfellsbæ – Brýnustu úrbætur í vegamálum fyrir Vesturland
- 19.05 Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
- 19.25 Opnað fyrir umræður í sal
- 19.50 Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi slítur fundi
Boðið verður upp á súpu og hressingu þegar fundi lýkur.
Skráning á fundinn fer fram hér!