„Með allt á hreinu“ frumsýnt í Bíóhöllinni

Leikfélag Nemendafélags Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og Tónlistarskólinn á Akranesi hafa á undanförnum vikum og mánuðum æft af krafti fyrir umfangsmestu uppsetningu skólans til þessa. Leikritið heitir Með allt á hreinu og byggir á sögunni sem Stuðmenn sögðu í samnefndri kvikmynd sem frumsýnd var árið 1982.

„Með allt á hreinu“ fjallar um tvær hljómsveitir, Stuðmenn og Gærurnar. Ýmis vandræði koma upp á milli hljómsveitanna – ekki síst eftir að það slitnar upp úr ástarsambandi Stinna Stuð og Hörpu Sjafnar. Fjölmargir áhugaverðir karakterar koma við sögu í þessu verki og má þar nefna Sigrúna Digra, Valdís barnsmóðir Hafþórs og fleiri. Einnig setja umboðsmenn hljómsveitanna beggja, Frímann og Hekla, mikinn svip á verkið. Eins og gefur að skilja er mikið fjör í þessari sýningu, söngur, dans og allt gert af fullum krafti. Baráttan á milli Gæranna og Stuðmanna stendur yfir alla sýninguna og spennandi að sjá hvor þeirra mun „meika það“.

Næstu sýningar / smelltu hér til að kaupa miða:

Laugardagur 10. mars kl. 20:00
Sunnudagur 11. mars kl. 20:00
Mánudagur 12. mars kl. 20:00
Miðvikudagur 14. mars kl. 20:00

Hér fyrir neðan eru örstutt viðtöl við nemendur úr FVA sem taka þátt í þessari sýningu sem verður frumsýnd 10. mars í Bíóhöllinni. Myndirnar tóku þeir Gunnar Viðarsson og Guðmundur Bjarki Halldórsson.

„Þetta kennir þeim að vaða ekki yfir mín gólf á skítugum skónum,” er í uppáhaldi hjá Emblu Hrönn Vigfúsdóttur sem leikur ýmis aukahlutverk í leikritinu ásamt því að dansa. „Ég ákvað að vera með að því ég hafði heyrt að þetta væri skemmtilegt. Lagið mitt í sýningunni er Dúddi rádd’okkur heilt.

 

Embla Hrönn Vigfúsdóttir. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

„Ég er í aukahlutverkum, dansa og syng bakraddir,“ segir Freyja María Sigurjónsdóttir sem kann frasann „Lásinn er inn út inn inn út. Kannast einhver við það? ég endurtek inn út inn inn út,“ alveg utanbókar. „Ég ákvað að taka þátt því ég var búin að heyra að það væri skemmtilegt að taka þátt í leikritinu, sem það nú sannarlega er. Valur og jarðaberjamaukið hans er uppáhaldslagið mitt í sýningunni,“ segir Freyja María.

Freyja María Sigurjónsdóttir. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

„Ég hef aldrei tekið þátt áður í leikriti. Mér fannst þetta vera áhugavert og spennandi og miðað við reynsluna fram að þessu þá er það svo sannarlega,“ segir Eiður Andri Guðlaugsson sem spilar á saxófón og allskyns slagverk í sýningunni. Ari Bragi er uppáhaldstónlistarmaður Eiðs Andra og lagið „Sísí“ er í uppáhaldi hjá honum í sýningunni.

 

Eiður Andri Guðlaugsson. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

„Maó Gling er uppáhaldslagið mitt í sýningunni,“  segir Thelma Rakel Ottesen en hún leikur Guðfinnu, eina af Gærunum í sýningunni. „Þessar pungrottur eru ekkert án okkar,“ er setningin sem stendur upp úr hjá mér í þessu verki. Ég hef bara alltaf haft áhuga á leiklist og langaði bara að vera með,“ segir Thelma Rakel.

Thelma Rakel Ottesen. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

Björgvin Bragi Ólafsson slær taktinn í sýningunni en Logic er uppáhaldstónlistarmaður trommarans. „Ég hef aldrei spilað í söngleik áður og mér fannst þetta vera gullið tækifæri til þess að blómstra á trommunum. Íslenskir karlmenn er helvíti skemmtilegt lag en ég verð samt að segja að „Dúddi rádd’okkur heilt sé besta lagið“.

Björgvin Bragi Ólafsson. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

Ég ákvað að taka þátt því þetta er svo sjúklega gaman og skemmtilegt fólk í kringum sýninguna,“ segir Aldís Ísabella Fannarsdóttir sem dansar og leikur sem karakterinn Sigrún Digra. „Ég fæ ekki borgað fyrir að vera næs og Valur og Jarðaberjamaukið hans er klikkað stöff í sýningunni,“ segir Aldís.

Aldís Ísabella Fannarsdóttir. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

Björgvin Þór Þórarinsson hefur í nógu að snúast í tónlistarverkefnum í sýningunni. Hann leikur á Orgel, syntha og líka á bongó í einu lagi. Logi bassaleikari er í uppáhaldi hjá Björgvini sem þurfti bara að heyra orðið Stuðmenn til þess að ákveða að taka þátt. UFO er uppáhaldslag tónlistarmannsins í sýningunni. „Það er svona öðruvísi og skemmtilegt.“

Björgvin Þór Þórarinsson. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

Umboðsmaður Gæranna er í höndum Ólafar Gunnarsdóttur. Karakterinn Hekla er kraftmikil eins og eldfjall og notar mikið frasann ,,Ég fæ ekki borgað fyrir að vera næs!” Valur og jarðaberjamaukið hans er uppáhaldslag Ólafar sem segir einnig að verkefnið sé það skemmtilegt að það sé ekki hægt að lýsa því.

Ólöf Gunnarsdóttir. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

Karakterinn Stinni Stuð sem flestir þekkja er í traustum höndum hjá Trausta Má Ísaksen sem lék stórt hlutverk í Ronju Ræningjadóttur í fyrra. „Það var mjög gaman og ég ákvað að taka þátt aftur. Með allt á hreinu er í uppáhaldi sem lag hjá mér og setningin sem er í uppáhaldi er: „Þá get ég loksins horft á mig í speglinum án þess að risa rassgatið á þér sé fyrir.”

Trausti Már Ísaksen. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

„Ég er ekkert sorrí, ég er bara í rusli yfir þessu helvíti,“ segir Sigurður Jónatan en hann leikur hinn eina sanna Dúdda í leikritinu. „Dúddi rádd’okkur heilt er að sjálfsögðu lagið mitt í sýningunni. Ferlið hefur verið skemmtilegt og ég hef tekið þátt í öðrum leikritum,“ segir Sigurður Jónatan.

Sigurður Jónatan. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

„Ég leik Valdísi, barnsmóður Hafþórs ásamt því að vera dansari og í bakröddum,“ segir Eyrún Sigþórsdóttir og bætir við uppáhaldssetningu sinni úr verkinu; „Það verður engin helvítis rúta, heldur langferðabíll og lagið mitt er „Dúddi rádd’okkur heilt. Ég ákvað að taka þátt aðallega bara útaf því að það var verið að fara setja upp „Með allt á hreinu”.

Eyrún Sigþórsdóttir. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

„Blíður, blíður er uppáhaldssetningin hjá Bergsveini Loga Ríkharðssyni í þessari sýningu. Hann leikur Skafta en Bergsveinn tók þátt í sýningunni í fyrra. „Mér fannst það bara svo ótrúlega skemmtilegt að ég varð að taka þátt í þessu líka. Dúddi rádd’okkur heilt er lagið mitt í þessari sýningu.”

Bergsveinn Logi Ríkharðsson. Mynd: Gunnar V og Bjarki H.

Logi Breiðfjörð Franklínsson er með góðan tónlistarsmekk að mati Skagafrétta enda er Roger Waters úr Pink Floyd í uppáhaldi hjá Loga sem bassaleikari og söngvari. Logi leikur á bassa í sýningunni en afhverju? „Besti bassaleikari Akraness varð nú að taka þátt og Dúddi rádd’ okkur heilt er lagið í sýningunni,  það er bara svo fáránlega gaman að spila það.“

Logi Breiðfjörð Franklínsson. Mynd: Gunnar V. og Bjarki H.

Selma Bríet Brynjarsdóttir er með mörg hlutverk í sýningunni.

„Ég leik hana Siggu skífu, og allskonar aukahlutverk svo er ég líka danshöfundur. Ég kann best við setninguna „Ég er ekki að borga þér fyrir að drekka landa í brekkunni.“ Það er alltaf svo miklill stemmari að taka þátt. Ferlið sjálft líka bara mjög skemmtilegt og maður lærir fullt af nýjum hlutum. Dúddi rádd’okkur heilt er mitt lag í sýningunni.“

Selma Bríet Brynjarsdóttir. Mynd:Gunnar V. og Bjarki H.

Sísi er karakter sem Sóley Brynjarsdóttir leikur. „Hann er egóisti og karlrembusvín,” er uppáhaldssetning Sóleyjar í þessu leikriti. „Öll lögin eru skemmtileg en ef ég þyrfti að velja eitt myndi ég segja Maó gling. Það er gaman að leika og mér fannst þetta frábært tækifæri.

 

Sóley Bynjarsdóttir. Mynd Gunnar V. og Bjarki H.

Hrönn Eyjólfsdóttir leikur Dýrleifu í þessu leikriti og uppáhaldssetning hennar er: „Það eru takmörk fyrir því hversu langt maður gengur fyrir peninga og frægð”. Afhverju ákvaðstu að taka þátt? „Bróðir minn lék í þessum leikritinum þegar hann var í skólanum og ég var ákveðin í að gera það líka.“ Uppáhalds lag? „Valur og jarðaberjamaukið hans.“


Hrönn Eyjólfsdóttir. Mynd/Gunnar V. og Bjarki H.