Akranesbær vill stofna afrekssjóð fyrir íþróttafólk á Akranesi

Íþróttafólk frá Akranesi hefur í gegnum tíðina náð stórkostlegum árangri í fjölmörgum íþróttagreinum í gegnum tíðina.

Stuðningur við afreksíþróttafólk hefur verið með ýmsum hætti hjá Akraneskaupstað.

Á síðasta fundi skóla- og frístundaráð var lagt til að stofnaður yrði afrekssjóður. Þessi samþykkt verður tekin fyrir á næsta bæjarstjórnarfundi.

Framúrskarandi íþróttafólk úr röðum ÍA fengi þar með fjárhagslegan stuðning þegar það skipar sér með árangri sínum í fremstu röð í heiminum.

Í fundargerð skóla- og frístundaráðs kemur fram að afreksfólk séu þeir einstaklingar sem standast viðmið í viðkomandi íþróttagrein sem skilgreind eru af viðkomandi sérsambandi og tekur mið af afreksstefnu ÍSÍ.

Styrkurinn er viðleitni Akraneskaupstaðar að styðja við afreksíþróttafólk ÍA sem hefur náð þeim einstaka árangri að keppa meðal þeirra bestu í heimi og kemur fram fyrir hönd ÍA og eru jafnframt fyrirmyndir yngri iðkenda.

Jafnframt er lagt til að stofnuð verði afreksnefnd sem hefur það hlutverk að koma með tillögu að veitingu styrksins.

Í nefndinni eiga sæti einn fulltrúi stjórnar ÍA, formaður skóla- og frístundaráðs og sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs (eða staðgengill hans). Hlutverk afreksnefndar er að vinna í samræmi við ofangreind viðmið og starfa samkvæmt starfsreglum sem samþykktar eru af skóla- og frístundaráði. Afreksnefnd leggur fram tillögu um styrkþega til skóla- og frístundaráðs.

Einar Örn Guðnason, Valdís Þóra Jónsdóttir og Sigurður faðir Jakobs Svavars. Mynd/skagafrettir.is