ÍA styrkir ÍATV um eina milljón kr. – gríðarlega öflugt sjálfboðaliðastarf

„Peningurinn fer í kaup á búnaði og viðhaldi hans.  Við höfum mikinn metnað og viljum gera útsendingar okkar þannig að þær standist samanburð við það sem best gerist,“ segir Örn Arnarson einn af lykilmönnum í sjálfboðaliðateymi ÍATV.

Fyrr í dag skrifaði Íþróttabandalag Akraness undir samning við ÍATV þess efnis að félagið styrkir ÍATV um eina milljón kr.

ÍA TV hefur aukið starfssemi sína verulega á undanförnum mánuðum.

Sýnt er frá helstu íþróttaviðburðum ÍA á Youtube rás ÍA TV sem er hægt að nálgast hér.

„Þessi samningur gerbreytir starfsumhverfi okkar og hvetur okkur áfram til góðra verka. Sú þjónusta sem við bjóðum uppá og sú heimildaöflun sem í henni felst er mikilvæg. Þessi samningur undirstrikar það,“ bætit Örn við en fjölmörg verkefni eru á dagskrá hjá ÍA TV.

„Við ætlum að koma vefsíðunni okkar í almennilegt stand með okkar eigin léni og ekki síst að tryggja varðveislu á því myndefni sem fellur til.  Við teljum það gríðarlega mikilvægt að varðveita þá sögu sem við erum að skrásetja. ÍA sýnir með þessum samningi að þar á bæ er fólk sama sinnis Þessari þjónustu hefur verið vel tekið og þessi samningur hvetur okkur til að gera enn betur og það er nákvæmlega það sem við ætlum okkur að gera,“ segir Örn.


Það er stór hópur sjálfboðaliða sem stendur á bak við ÍATV.

Þar má nefna; Örn Arnarson, Heiðar Mar Björnsson, Arnar Óðinn Arnþórsson, Snorri Kristleifsson, Björn Þór Björnsson, Kristján Gauti Karlsson, Hannibal Hauksson, Ingimar Elfar Ágústsson, Gylfi Karlsson, Ísak Máni Sævarsson, Sindri Þór, Bergur Líndal Guðnason og Valgeir Sigurðsson.