Gabríel Ísak er rauðhærðasti Íslendingurinn

Gabríel Ísak Valgeirsson sigraði með yfirburðum í keppninni „Rauðhærðasti Íslendingurinn“ sem fram fór í dag.

Keppnin hefur farið fram í mörg ár samhliða bæjarhátíðinni Írskir dagar á Akranesi.

„Mig langað að prófa að vera með og þess vegna tók ég þátt í þessari keppni. Þetta var mjög skemmtilegur viðburður. Ég hef keppt einu sinni áður þegar ég var 6 ára. Þá fékk ég bikar fyrir að taka þátt en núna ætlaði ég bara að vinna,“ sagði hinn 15 ára gamli Gabríel Ísak við Skagafréttir í kvöld.

Gabríel Ísak er að vinna í Vinnuskóla Akraness í sumar en þarf líklega að óska eftir að fá frí þar sem hann fékk flugmiða fyrir tvo með Gaman Ferðum í verðlaun fyrir að vera Rauðhærðasti Íslendingurinn.

„Ég tek örugglega pabba með mér í þessa ferð en ég er samt ekki alveg viss,“ bætti Gabríel við.

Ættartréð:

Foreldrar: Þorbjörg Sigurðardóttir og Valgeir Valgeirsson.
Systkini: Valgeir Daði og Aldís Eir.

Auglýsing