Valdís Þóra undirbýr sig fyrir úrtökumót á sterkustu mótaröð heims

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL og íþróttamaður Akraness 2017, mun á næstu vikum undirbúa sig fyrir 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA mótaröðina í Bandaríkjunum.

Valdís Þóra hefur nú þegar tryggt sér öruggt sæti á LET Evrópumótaröðinni á næsta ári. Valdís Þóra er í 27. sæti stigalistans eins og er. Besti árangur hennar er 3. sæti á mótaröðinni sem er sú næst sterkasta í heimi á eftir LPGA mótaröðinni í Bandaríkjunum.

Valdís Þóra er stödd þessa stundina í Bandaríkjunum og verður hún þar fram að úrtökumótinu. Það er erfitt verkefni sem bíður Valdísar Þóru en hún þarf ekki að fara í gegnum 1. stig af alls þremur á úrtökumótunum fyrir LPGA.

Árangur hennar á LET Evrópumótaröðinni gerir það að verkum að Valdís Þóra sleppur við 1. stigið.

Hún fer því beint inn á 2. stig úrtökumótsins á LPGA mótaröðinn fer fram dagana 13.-18. okt á Plantation Golf & Country Club, Venice, Flórída. Þar komast á bilinu 15-25 kylfingar áfram á lokastigið.

Lokastig úrtökumótsins fer fram dagana 22. október – 3. nóvember á Pinehurst Resort í Norður-Karólínu. Þar er keppt um 45 sæti á LPGA mótaröðinni 2019.

Auglýsing