„Villi Bigg“ sendir VÍS tóninn – Ósáttur við lokun skrifstofunnar á Akranesi

„Þetta mun kalla á að ég mun íhuga að færa mínar tryggingar í burtu frá VÍS og ugglaust mun stjórn Verkalýðsfélags Akraness skoða hvort það verði einnig gert með allar tryggingar félagsins hjá VÍS.

Það er algjörlega óþolandi og ólíðandi að þegar verið er að leita hagræðingar þá er ætíð ráðist á landsbyggðina og við þeirri þróun verða neytendur á landsbyggðinni að svara af fullum karfti,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness á fésbókin í dag.

Tilefnið er að VÍS hefur ákveðið að loka útibúinu á Akranesi eins og kemur fram í þessari frétt á mbl.is. Starfsmönnum á þjónustuskrifstofunni á Akranesi verður boðið að vinna áfram á skrifstofu VÍS í Reykjavík.

„Vil taka það fram að ég og Verkalýðsfélag Akraness höfum átt í mjög góðu viðskiptasambandi við starfsmenn útibúsins hér á Akranesi enda toppfólk sem þar starfar og því er sorglegt að verið sé að leggja þessa starfsemi niður á Akranesi. Ég vil skora á okkur Akurnesinga að mótmæla þessari „hagræðingaaðgerð“ harðlega alla vega mun ég gera það!,“ bætir verkalýðsleiðtoginn við.