„Aðventukvöldin njóta vinsælda á Laxárbakka – „skemmtilegur tími framundan“

„Við tókum við lyklunum hér á Laxárbakka þann 20. júní 2017 og þetta ár hefur verið mjög skemmtilegt. Það sem stendur upp úr er hvað okkur hefur verið svakaleg vel tekið, sveitungarnir voru fljótir að koma og bjóða okkur velkomin og aðstoð ef við vildum.

Þó að stærsti hluti viðskiptavina okkar komi utan úr heimi að þá er það okkur mjög mikilvægt að eiga í góðum samskiptum og viðskiptum við nærumhverfið,“ segir Brynjar S. Sigurðarson eigandi Laxárbakka við skagafrettir.is.

Brynjar rekur Hótel Laxárbakka ásamt eiginkonu sinni, Heklu Gunnarsdóttur. Brynjar segir að þau hafi tekið við á háannatíma og því hafi verið margt að læra og flest gert á hlaupum.
Hótel Laxárbakki er við Laxá í Leirársveit og er aðeins í um 10 mín akstursfjarlægð frá Akranesi.

„Það sem kom okkur í raun mest á óvart er sú mikla breyting og þróun sem hefur átt sér stað í ferðaþjónustunni á síðastliðnum árum. Fyrir um 20 árum vorum við í hótelrekstri austur á Egilsstöðum. Á þeim tíma voru nær allar bókanir erlendra ferðamanna í gegnum ferðaskrifstofur. Síðan var farið með skjalatösku suður til Reykjavíkur veturinn eftir ferðamannatímabilið (sem var frá 20. júní til 20. ágúst) til að reyna að innheimta. Nú í dag hafa íslenskar ferðaskrifstofur orðið undir fyrir netinu, erlendum bókunarsíðum og hótelin fá greitt strax.“

Rekstur Laxárbakka er stórt fjölskylduverkefni. Brynjar og Hekla fá góða aðstoð frá sonum sínum þremur. Foreldrar Brynjars hafa einnig lagt hönd á plóginn – en þau hafa mikla reynslu á þessu sviði.

Brynjar segir að að hugmyndin á bak við Laxárbakka sé enn að mótast og þróast.

Aðal áherslan hjá okkur í upphafi var að ná gistingunni af stað og það hefur gengið mjög vel. Gistingin er í dag undirstaðan í rekstrinum

„Við ákváðum að gefa okkur 18 mánuði til að finna taktinn í rekstrinum, læra og móta framtíðina.

Jafnframt gerðum við okkur grein fyrir því að þessa 18 mánuði yrði mikið álag á fjölskylduna þar sem ekki yrði ráðið inn mikið af starfsfólki.

Aðal áherslan hjá okkur í upphafi var að ná gistingunni af stað og það hefur gengið mjög vel.

Gistingin er í dag undirstaðan í rekstrinum. Samhliða hefur einnig verið góð aukning hjá okkur í hópum sem koma í í mat og öðrum viðburðum s.s. starfsmannahópum, brúðkaupum, fermingaveislum, afmælum og fundum.


Gistingin hefur verið tvískipt, annars vegar dýrari gisting í fullbúnum íbúðum með baði og eldhúsi og svo í ódýrari gistingu þar sem herbergin eru með sameiginlegu baði og aðgang að sameiginlegu eldhúsi. Við byrjuðum á því að gera íbúðirnar enn betri, settum inn ný rúm, rúmföt, gardínur og eldhúsáhöld. Næsta skref er að gera ódýrari herbergin huggulegri en það er stærra verkefni þar sem skipta þarf um glugga og hurðir auk innan stokks muna,“ bætir Brynjar við.

„Það er samt sem áður oft litlir hlutir sem gleðja okkur og eru mikils virði. Það skipti miklu máli fyrir okkur að laga aðkomuna að Laxárbakka og við fögnuðum því þegar bundið slitlag var lagt á heimreiðina.“

Framundan er skemmtilegur tími á Laxárbakka þar sem að boðið verður upp á Aðventukvöld. Brynjar segir að Aðventukvöldin hafi vakið athygli og hópar víðsvegar af landinu hafi komið til að njóta lífsins á Laxárbakka.

„Aðventukvöldin eru svakalega skemmtileg. Þá fáum við að bera fram allt sem okkur finnst gott, villibráð sem við hanterum sjálf og jafnvel veiðum. Við leggjum mikið upp úr forréttunum en höfum aðalréttina léttari, þ.e. kalkún og pörusteik og svo er að sjálfsögðu gómsætir eftirréttir. Það eru mest hópar héðan úr Hvalfjarðarsveit og Akranesi sem hafa komið á Aðventukvöldin. Við erum einnig að fá hópa úr Reykjavík, Borgarnesi og frá Snæfellsnesi.“

Skagamenn eru að sögn Brynjars að standa sig vel í að heimsækja Laxárbakka.

„Við erum með góðan hóp Skagamanna sem eru duglegir að koma hingað, fá sér bíltúr, og fá sér kaffi og vöfflur. Það er mikið af útivistarfólki að koma til okkar. Þar eru á ferð hópar sem hafa verið að ganga á fjöll eða hjóla í næsta nágrenni. Flestir fá sér kjötsúpuna okkar og einn öl með.

Að mínu mati er þetta svæði hérna við Laxárbakka frábært fyrir Skagamenn og aðra til að koma í sveitina, gista og njóta náttúrunar. Við erum stutt frá Akranesi en það hafa allir gott af því að breyta aðeins um umhverfi og hlaða rafhlöðuna.

Það er enn laust á Aðventukvöldin á Laxárbakka þann 24. nóvember og 8. desember.

Pantanir í síma 551 2783 eða á netfanginu [email protected]