Guðlaugin opnuð á næstunni – kostar rúmlega 80 milljónir kr.

Rekstur Guðlaugar við Langasand mun falla undir ábyrgðarsvið forstöðumanns íþróttamannvirkja. Frá því var greint á fundi Skóla- og frístundaráðs á dögunum. Gert er ráð fyrir að laugin verði opnuð fyrir almenning á næstunni.

Samkvæmt heimildum Skagafrétta er áætlað að kostnaðurinn við byggingu Guðlaugar verði rétt rúmlega 80 milljónir kr.  Og er það nokkuð nálægt þeirri áætlun sem lögð var fram í upphafi.

Verkefnið „Guðlaug við Langasand“ fékk 30 milljóna kr. styrk. frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en þessir fjármunir koma úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Þar að auki fékk verkefnið 14 milljónir kr. úr Minningarsjóði Jóns Gunnlaugssonar útvegsbónda og Guðlaugar Gunnlaugsdóttur húsmóður frá Bræðaparti á Akranesi – en þeim fjármunum var úthlutað árið 2014.

Sjá nánar í þessari frétt. 

Framlag Akraneskaupstaðar er því rétt rúmlega 36 milljónir kr.

 

Guðlaugin samanstendur af útsýnispalli, heitri laug og grynnri laug sem nýtur vatna úr yfirfalli efri laugarinnar.

Á fundi Skóla og frístundaráðs kom fram að rekstur Guðlaugar falli vel að annarri starfsemi á íþróttasvæðinu á Jaðarsbökkum. Fyrst starfsárið verður nýtt til þess að safna upplýsingum – til þess að móta framtíðar rekstrarform Guðlaugar.

Ráðið leggur einnig til að gott samstarf verði á milli skóla- og frístundasviðs og skipulags- og umhverfissviðs við þróun svæðisins og við stefnumótunaraðila ferðaþjónustunnar hjá Akraneskaupstað.

Fyrir aðra áhugasama um verkefnið má hér skoða skýrslu sem Basalt gaf út árið 2015 um Guðlaugu.

Auglýsing