Dr. Ívar Örn með forsíðumynd á virtu vísindatímariti

Auglýsing



„Þetta er kannski ekki alveg heitasta stöffið kannski hafa einhverjir gaman af því að Skagamaður eigi ljósmynd á forsíðu á virtu vísindatímariti,“ segir Dr. Ívar Örn Benediktsson laufléttur við skagafrettir.is.

Að sjálfsögðu er það stórfrétt þegar slíkur viðburður á sér stað. Tímaritið heitir Earth Surface Processes and Landforms. Það fjallar um landform og jarðfræðileg ferli á yfirborði jarðar.

Greinina má lesa hér: 

Ívar Örn, fæddist árið 1978 á Akranesi, skrifaði grein í tímaritið ásamt kollegum sínum en umfjöllunarefnið var Múlajökull. Rannsóknir Ívars og félaga á undanförnum árum hafa gert það að verkum að Múlajökull er heimsþekktur í fræðum sem tengjast jarðvísindum.

Rannsóknirnar sem Ívar Örn hefur unnið að snúast um það hvernig jöklar móta land og hvað lesa megi úr setlögum og landformum um sögu þeirra. Greinin, sem forsíðumyndin tengist, er liður í þessu og  fjallar um samspil jökulsporðsins við landslagið sem undir liggur.

Ívar Örn Benediktsson er sérfræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans og aðjúnkt við jarðvísindadeild.

Eftirfarandi texti er á Vísindavef Háskóla Íslands um Ívar Örn. 

Rannsóknir hans eru á sviði ísaldar- og jöklajarðfræði og snúa einkum að landmótun jökla og vexti þeirra og hnignun í tíma og rúmi vegna loftslagsbreytinga.

Megináhersla Ívars hefur verið á nútímajökulumhverfi víðsvegar á Íslandi og nú hin síðari ár á fornjökulumhverfi og virkni ísstrauma á Vestur-, Norður- og Norðausturlandi.

Auk þess hefur Ívar tekið þátt í rannsóknarverkefnum í Síberíu og Svíþjóð sem einblínt hafa á jöklunarsögu þessara svæða.

 

Ívar hefur unnið rannsóknir sínar hérlendis sem erlendis í samvinnu við fjölda vísindamanna frá Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum

Má þar nefna rannsóknir á flæði framhlaupsjökla, myndun jökulgarða framan við þá, og myndun og þróun jökulalda við Múlajökul, sem vakið hafa talsverða athygli á undanförnum misserum og fjallað hefur verið um í innlendum og erlendum miðlum.

Auk þess má nefna rannsóknir á framrásum skriðjökuls í Borgarfirði á síðasta jökulskeiði, sem einn doktorsnema Ívars, Þorbjörg Sigfúsdóttir, vinnur að.

Niðurstöður rannsókna Ívars og félaga hafa birst í ýmsum vísindatímaritum og bókum og vitnað er reglulega til rannsókna þeirra í helstu kennslubókum á sviði jöklajarðfræði.

Ívar tók þátt í viðamiklum rannsóknum við Múlajökul 2009-2015. Myndin er tekin undir lok þriggja vikna leiðangurs 2014.

Ívar Örn fæddist á Akranesi árið 1978. Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi 1998, BS-prófi frá Háskóla Íslands 2003 og meistaraprófi frá Kaupmannahafnarháskóla 2005.

Hann lauk doktorsprófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 2010.

Rannsóknir Ívars í framhaldsnámi snéru að landmótun framhlaupsjökla og fjallaði doktorsverkefni hans um setgerð, byggingu og myndun jökulgarða við Brúarjökul og Eyjabakkajökul.

Að loknu doktorsnámi var Ívar nýdoktor við Jarðvísindastofnun Háskólans áður en hann gegndi stöðu lektors við Jarðfræðideild Lundarháskóla í Svíþjóð 2012-2015.

Ívar hefur lokið námskeiðum í kennslufræði við Háskóla Íslands og Lundarháskóla.

Hann hefur sinnt umtalsverðri kennslu á sínu sérsviði, svo sem um setlagafræði jökulumhverfa, landmótun jökla, jöklunar- og loftslagssögu, jarðfræðikortagerð, og komið að kennslu í ýmsum öðrum námskeiðum, meðal annars við Háskólasetrið á Svalbarða og sem prófdómari við Heimskautaháskólann í Tromsö.

Þá hefur hann leiðbeint fjölda nemenda í grunn- og framhaldsnámi.

Ívar situr í stjórn NORDQUA (samtök Norrænna kvarterjarðfræðinga) og stýrihópi nýs samstarfsnets um heimskautarannsóknir í kvarterjarðfræði, sem taka mun við af PAST Gateways í apríl 2018.

Ættartréð: 
Ívar Örn er fæddur árið 1978 á Akranesi eins og áður segir. Foreldrar hans eru Friðgerður Elín Bjarnadóttir (1946) og Benedikt Rúnar Hjálmarsson (1946) en hann lést árið 1990. Systur Ívars eru þær Kolbrún (1967) og Ásta (1969).
Eiginkona Ívars er  Svanhildur Þorsteinsdóttir og eiga þau þrjú börn.

Auglýsing



Auglýsing