„Það ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur að opna á nýjum stað“

Auglýsing



„Við erum gríðarlega ánægð með þessa niðurstöðu og það ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur að opna á nýjum stað,“ segir Heimir Jónasson við Skagafréttir.

Hjónin Helga Dís Daníelsdóttir og Heimir, sem rekið hafa Verslunina Nínu með glæsibrag við Kirkjubraut 4-6 frá árinu 2007, ætla að flytja verslunina í nýtt húsnæði á næstunni

Foreldrar Helgu, Nína Áslaug Stefánsdóttir og Daníel Daníelsson, opnuðu verslunina þann 20. ágúst árið 1982 við Kirkjubraut 4-6.

Verslunin Nína mun á næstu vikum færa sig um set aðeins ofar á Kirkjubrautina í húsnæði þar sem Ozone var áður í við Kirkjubraut 12.

„Við höfðum velt því fyrir okkur í nokkurn tíma að kaupa þetta glæsilega húsnæði við Kirkjubrautina. Það gekk upp í dag og við munum nýta næstu vikur í að standsetja rýmið eins og við viljum hafa það. Okkur fannst leiðinlegt að sjá að ekkert væri um að vera í þessu frábæra verslunarrými og það hvatti okkur áfram að taka þessa ákvörðun.“

Heimir og Helga Dís ætla að opna á nýja staðnum eins fljótt og hægt er.

„Tímaramminn er ekki alveg á hreinu en það eru einhverjar vikur í það að við opnum. Vöruúrvalið verður áfram fjölbreytt, “ segir Heimir en verslunarrýmið sem Heimir og Helga Dís kaupa er um 500 fermetrar.

Heimir segir að það sé ekki vitað hvað taki við í því rými þar sem Verslunin Nína hefur verið í frá árinu 1982. Nína og Daníel eiga það hús.

http://localhost:8888/skagafrettir/2018/10/23/vinnan-i-ninu-er-ahugamal-og-lifsstill-2/

Auglýsing