Soroptimistakonur bökuðu mörg þúsund pönnukökur til góðgerðamála

Auglýsing



Það voru margir sem buðu upp á gómsætar pönnukökur á bóndadaginn s.l. föstudag.

Ástæðan er einföld.

Öflugur hópur kvenna úr Soroptimistaklúbb Akraness bakaði um 4.200 pönnukökur sem seldar voru í fyrirtæki á Akranesi og nágrenni.

Pönnukökurnar voru ýmist sykraðar eða með rjóma og hefur framtak sjálfboðaliðanna vakið athygli.

Allur ágóði af pönnukökusölunni fer í verkefni sem bæta stöðu kvenna í heimabyggð, heimalandi eða á alþjóðavettvangi.

Akranesklúbburinn hefur m.a. styrkt endurhæfingahúsið Hver og námskeið í Fjölbrautaskólanum fyrir stúlkur. Einnig hafa skólabækur verið keyptar fyrir börn í Malaví, og flóttakonur frá því landi hafa einnig verið styrktar. Hús hafa verið byggð í Kenýa sem eru ætluð fyrir konur og þannig mætti lengi telja.

Soroptimistar eru alþjóðasamtök fyrir vinnandi konur í öllum störfum. Markmið Soroptimista er stuðla að heimsmynd þar sem konur og stúlkur ná í sameiningu fram því besta sem völ er á, bæði sem einstaklingar og sem hópur, og þar sem þær geta látið drauma sína rætast og til jafns við aðra skapað sterk og friðsöm samfélög um allan heim.

Í Alþjóðasamtökum Soroptimista (Soroptimist International) eru yfir 80.000 félagar í 127 löndum. Fyrsti klúbburinn var stofnaður árið 1921 í Oakland í Kaliforníu. Heimshlutasamböndin eru fjögur og undir hverju þeirra eru landssambönd eða svæðasambönd, og svo klúbbar.

Soroptimistasamband Íslands er hluti af Evrópusambandi Soroptimista. Íslenskir soroptimistar eru um 600 talsins í 18 klúbbum viðs vegar um land. Í klúbbunum er leitast við að hafa fulltrúa sem flestra starfsstétta til að fá sem breiðastan hóp. Fyrsti íslenski klúbburinn var stofnaður árið 1959.

Soroptimistar eiga ráðgefandi fulltrúa hjá hinum ýmsu stofnunum Sameinuðu þjóðanna og eiga einnig ráðgjafaraðild að Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC).

Auglýsing



Auglýsing