Auglýsing



Sveinn Arnar Sæmundsson skrifar:

Síðustu sextán ár hef ég verið organisti við Akraneskirkju. Þetta er nokkuð langur tími þó mér finnist hann hafa verið fljótur að líða.

Í þessari hugleiðingu ætla ég ekki að fara yfir þennan tíma en ætla að staldra við og setja nokkur orð um það sem hefur verið stór hluti af mínu starfi. Kórstarfið og félagarnir, og minnast tveggja félaga í leiðinni.

Kórsöngur hefur mér alltaf þótt merkilegur. Fallegt tjáningarform. Fjölmargir ólíkir persónuleikar eyða saman tíma og æfa samsöng.

Gefa af sér og þurfa að sýna ákveðinn aga, þolinmæði og að sjálfsögðu áhuga til að allt gangi sem farsælast fyrir sig. Og á Íslandi eru ótrúlega margir sem syngja í kórum þannig að eitthvað er fólk tilbúið að leggja á sig.

Misjafnt er hversu lengi fólk staldrar við í kórunum. Margir kórar hafa sama kjarnann árum saman á meðan aðrir kórar eiga erfiðara með að halda velli. Það er líka hægt að velja um fjölbreytt kórastarf til að taka þátt í.

Kórinn minn hefur haldið nokkuð góðum dampi í minni tíð og félagslega hefur hann verið sterkur sem skiptir ekki svo litlu máli. Öflugur kjarni hefur myndast sem hefur fylgst að í gegnum árin. Það er mikilvægt að kórar hafi gott söngfólk til að ná árangri. En ekki síður mikilvægt að vera góður félagi. Félagi allra.

Það er óhjákvæmilegt að þurfa að kveðja fólk. Við vitum fyrir víst að við deyjum á endanum. Hluti af mínu starfi er að sinna kveðjuathöfnum. Útförum. Vera aðstandendum innan handar og sjá um tónlistarflutning.

Eftir nokkuð langa veru mína á Akranesi verða þessar athafnir alltaf meira og meira persónulegri og meira krefjandi. Ég er ekki bara einhver og hinir látnu eru ekki bara einhverjir og aðstandendur eru ekki heldur bara einhverjir. Þetta er oftast nær fólk sem ég þekki eða kannast við. Og ég veit að ég tala líka fyrir munn samstarfsfólks míns við kirkjuna.

Ég vil minnast tveggja kórfélaga úr Kór Akrneskirkju sem fylgdu mér í nokkur ár. Þetta eru þau Marsibil Sigurðardóttir og Ingimar Magnússon. Þau kvöddu jarðlífið með stuttu millibili og og voru jarðsungin í nóvember og desember. Þau höfðu bæði glímt við erfiða sjúkdóma.

Marsibil kynntist ég lítillega þegar maður hennar lést síðla árs 2003. Nokkrum árum síðar kom hún inn í Kór Akraneskirkju. Marsibil var ekki með mikla söngreynslu og vissi vel að hún var ekki sterkasti söngvarinn enda ekki með mikinn, tónlistarlegan bakgrunn.

En hún gaf mikið af sér og var virkilega góður félagi. Myndarleg kona með útgeislun, hafði góða nærveru, fallegt bros og var afar hláturmild.

Skórnir pössuðu betur en á Öskubusku um árið. Ég lagði gömlu dansskónum af Króknum og hef síðan notað skóna frá Marsibil.

Samveran með fólkinu skipti hana miklu og persónulega fannst mér vanta mikið þegar hún var ekki á æfingum. Vorið 2016 vorum við að undirbúa söngferð til Brighton á Englandi. Hún hafði verið slæm í fæti og að lokum treysti hún sér ekki til að fara. Hún lét stjórnina og mig vita og sendi svo þessa orðsendingu til kórfélaganna á facebooksíðu kórsins:

„Góða ferð kæru félagar. Ég er hætt við að fara í ferðina, veðrið er ekki nógu gott… Nei, nei, hægri fóturinn eitthvað að plaga mig svo ég get ekki gengið neitt. Enn og aftur njótið og komið heil heim“.

Hún greindist síðan með krabbamein og barðist í rúm tvö ár. Hún bað mig um að fá að vera áfram á netfangalista kórsins sem og á lokaðri facebooksíðu og það var meira en sjálfsagt. Þannig gat hún fylgst með okkur og starfinu þar til hennar jarðvist lauk.

Ein minning um Marsbil er eftirminnilegri fyrir mig en aðrar. Ég átti sérstaka orgelskó sem Árni heitinn Blöndal á Sauðárkróki gaf mér þegar ég var að hefja orgelnám. Þetta voru dansskór sem hann átti. Ég notaði þá í mörg ár en þeir voru orðnir ansi lélegir. Fyrir þremur árum eða svo kom Marsibil til mín með skó.

Dansskó, sem maðurinn hennar hafði átt. Hún sagði að ég mætti eiga þá, henni sýndist við geta verið álíka fótnettir. Og það var rétt hjá henni. Skórnir pössuðu betur en á Öskubusku um árið. Ég lagði gömlu dansskónum af Króknum og hef síðan notað skóna frá Marsibil.

Marsibil lést þann 20. nóvember 2018 og var jarðsungin frá Akraneskirkju 29. nóvember. Hún var búin að velja tónlistina sjálf og þar mátti finna lög sem hún hafði sungið með okkur. Yfir henni sungu nokkrir félagar hennar úr kórnum. Og í miðri athöfn, þegar ég færði fætur á milli nótna í pedalnum, var mér skyndilega hugsað til þess að ég var í skónum frá henni Marsbil.

Ingimar Magnússon var í kórnum þegar ég kom á Akranes. Gott ef hann var ekki í kórstjórninni. Ég er ekki viss um að ég hafi kynnst honum vel til að byrja með. Hann var búinn að vera í einhvern tíma og söng bassa. En ég fann það að þessi maður var traustur.

Hann mætti á allar æfingar og svo fórum við að kynnast betur og urðum góðir félagar. Það var auðvelt að tala við hann og ég átti mörg innihaldsrík samtöl við hann. Og trúnaðarsamtöl. Hann varð síðar kórformaður og þar áttum við afar gott samstarf. Ingimar var gleðimaður og ekki var leiðinlegt að vera með honum og Ásthildi konu hans á góðum stundum.

Það var mikil músík í Ingimar og hann hafði lært töluvert í tónlist og spilaði á harmoníku m.a. Hann las nótur og hafði gott tóneyra en röddin var ekki mikil og hann vissi vel af því. Hann átti við lungnasjúkdóm að stríða og leið fyrir hann.

Það var erfið stund fyrir Ingimar þegar hann kom til mín vorið 2012 og sagðist ekki ætla að vera með áfram. Sagðist ekki hafa rödd lengur sem not væri af og vildi hætta áður en hann gerði einhvern skaða, eins og hann orðaði það sjálfur. Ég reyndi að telja honum trú um að vera með okkur aðeins lengur en hann var ákveðinn. Hann var hálf klökkur og sennilega við báðir. Við áttum hreinskilið spjall. Eitt sagði hann mér, sem ég hefi lengi hugsað til. „Ég hef ekki alltaf verið sammála þér en ég virði allt sem þú gerir og mun alltaf standa með þér“.

Og hann fylgdist vel með og var í sóknarnefnd. Kom á alla tónleika kórsins eftir að hann hætti og þakkaði mér alltaf fyrir. Annað hvort „maður á mann“ eða þá að hann sendi mér sms eða póst og hvatti okkur áfram til góðra verka.

Síðasta árið hérna megin var hann orðinn mjög slappur en lét það ekki aftra sér. Fór um bæinn á litlum vélfák og var með súrefniskút. Hann kom stundum til mín eða hringdi og var að biðja mig um lög eða sálma og/eða ráðfæra sig við mig um tónlist. Ég hugsaði ekkert út í það hvað hann væri að gera með nóturnar. Annað en að hann að væri að spila eftir þeim eða stúdera.

„Kæri Sveinn Arnar. Þegar þú opnar þetta bréf þá verð ég kominn þangað sem sólin kemur snemma upp og sest seint“

Hann lést þann 6. desember síðastliðinn. Sunnudaginn 9. desember kom ég til vinnu að undirbúa messu dagsins. Þegar ég koma á skrifstofuna mína, beið mín brúnt umslag, merkt mér. Það var frá Ingimar. Ég opnaði og mín beið handskrifað bréf sem hófst á þessum orðum: „Kæri Sveinn Arnar. Þegar þú opnar þetta bréf þá verð ég kominn þangað sem sólin kemur snemma upp og sest seint“.

Ýmislegt fleira hafði hann að segja en fyrst og fremst var hann búinn að velja alla tónlist sem flytja átti við útför hans og nokkur fyrirmæli meðfylgjandi. Og þarna voru mörg ljósrit af nótum sem hann hafði fengið frá mér. „Og ef þú getur ekki komið þessu öllu fyrir í athöfninni, þá er það mér að meinalausu“. Ég var orðlaus.

Hann var jarðsunginn frá Akraneskirkju þann 18. desember. Og að sjálfsögðu sleppti ég ekki neinu einasta lagi. Það sem ekki var sungið í athöfninni, var sungið fyrir athöfnina. Sem nokkrir af hans góðu félögum sungu.

Ég er búinn að vera með þessar hugleiðingar lengi í smíðum en birti þær nú.

Blessuð sé minning þessa góða fólks og þeirra sem hafa verið í kórnum mínum og hafa hvatt á undanförnum árum.

Þau sitja í sólinni og syngja.

Greinin birtist fyrst á bloggsíðunni orgelleikarinn.blog.is

Auglýsing



Auglýsing