Opið bréf til Bæjarstjórnar Akraness 



Opið bréf til Bæjarstjórnar Akraness

Í dag, föstudaginn 15. mars hefst loftslagsverkfall á Akranesi, innblásið af hinni 16 ára sænsku Gretu Thunberg. Akranes fer þá í hóp yfir 1.600 staða í 105 löndum þar sem nemendur og aðrir hafa mótmælt slæmum vinnubrögðum stjórnvalda um allan heim varðandi loftslagsmál.

Nú er verið að vinna í umhverfisstefnu Akraneskaupstaðar og biðlum við því til ykkar að ráðast strax í aðgerðir og setja Akraneskaupstað í forystu sveitarfélaga á Íslandi í umhverfis- og loftslagsmálefnum. Fylgja þarf eftir niðurstöðum samráðshóps um aðgerðaáætlun í plastmálefnum sem skilaði tillögum til umhverfis- og auðlindaráðherra í lok síðasta árs.
Auka þarf vitund fólks í bænum um ofnotkun á einnota plastvörum og skaðsemi þeirra fyrir umhverfið, draga úr notkun einnota plasts, draga úr losun örplasts í hafið með bættri hreinsun skólps og hvetja til göngu og hjólreiða um bæinn til að minnka útblástur.

Okkar framtíð er í hættu!
Það er engin pláneta B!
Það er löngu kominn tími á aðgerðir.
Við höfum ekki tíma til að bíða, breytingar strax!
Með von um breytingar.

Ungmennaráð Akraness

Auglýsing



Auglýsing