„Okkar er ábyrgðin“ – Vesturland stendur á tímamótum



„Allir áhugasamir um nýsköpun, atvinnu og gott samfélag á Vesturlandi eiga ekki að láta sig vanta á ráðstefnuna á laugardaginn. Okkar er ábyrgðin,“ segir Helena Guttormsdóttir við Skagafréttir.

Helena er ein af þeim sem kemur að skipulagningu á málþinginu „Að sækja vatnið yfir lækinn“ sem haldið verður í Tónbergi Akranesi laugardaginn 23.mars.

Þar  koma saman aðilar af ólíkum sviðum samfélagsins til að miðla af þekkingu sinni og skapa umræður um atvinnutækifæri, lífsgæði og nýsköpun.

„Vesturland stendur á tímamótum. Nálægð við höfuðborgarsvæðið og iðnaðarsvæði á Grundartanga, skapar atvinnutækifæri en líka mikinn akstur og fjarveru frá heimabyggð,“ bætir Helena við og margar spurningar liggja fyrir málþinginu.

„Hvernig má auka fjölbreytileika og gera svæðið sjálfbærara um eigin hag. Er nóg að skapa ný atvinnutækifæri? Eða þurfa samfélagslegir innviðir, nýsköpun og atvinna að vinna saman til að auka sameiginleg lífsgæði. Býður Vesturland e.t.v. upp á gæði sem munu þykja afar eftirsóknarverð á komandi árum?,“ segir Helena.

Málþingið er samstarfsverkefni Akraneskaupstaðar, SSV, Landbúnaðarháskóla Íslands, og Uppbyggingarsjóðs Vesturlands.

Getur Vesturland skapað fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri með heildrænni nálgun?

Þórdís Kolbrún ráðherra setur ráðstefnuna undir yfirskriftinni „Nýsköpun er nauðsyn“.

Þá hefst fjöldi áhugaveðra örerinda sem vonandi virka sem vítamínsprauta á málþingsgesti.

Heiðar Mar Björnsson kvikmyndagerðarmaður veltir fyrir sér umhverfi frumkvöðla á Akranesi, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi forstjóri Marel fjallar um doktorsnám sem drifkraft í nýsköpun.
Karen Jónsdóttir segir frá sínu lífræna nýsköpunarfyrirtæki og Ólöf Helga Jónsdóttir frá Skaganum 3x s fjallar um hag stórfyrirtækja af þáttöku í erlendum rannsóknarsjóðum.

Skoðaðir verða möguleikar Akraness sem göngu – og hjólabæjar og reynsla Siglfirðinga af innviðauppbyggingu kynnt, svo eitthvað sé nefnt.

Í lokin verða pallborðsumræður með þátttöku Sævars Þráinssonar bæjarstjóra, Ragnheiðar I. Þórarinsdóttur rektors LbhÍ, Inga Rafns Sigurðssonar stofnanda Karolina Fund, Signýjar Óskarsdóttur Creatrix ráðgjöf- Karen Jónsdóttir frá Café Kaja og Gests Péturssonar forstjóra Elkem.

Léttar veitingar verða í ráðstefnulok og fundarstjóri er Páll Brynjarsson frá SSV.

Skráning er hér:

Auglýsing



Auglýsing