Pistill: Þorpið í kaupstaðnum – Frístundaheimilið Krakkadalur og K567



Heiðrún Janusardóttir verkefnisstjóri æskulýðs-og forvarnarmála hjá Akraneskaupstað skrifar hér fjórða og lokapistilinn þar sem að hún beinir kastljósinu að því mikla starfi sem unnið er í Þorpinu.

Haustið 2017 var ákveðið að færa hluta af starfsemi Frístundaheimila grunnskólanna yfir til Þorpsins. Um var að ræða eininguna sem sem sinnir 8 og 9 ára börnum þ.e 3.og 4.bekk. Fyrst og fremst var þetta gert þar sem var orðið ansi þröngt um starfsemina innan skólanna. Strax um haustið 2017 komu börnin úr Grundaskóla en í febrúar 2018 bættust svo krakkarnir úr Brekkubæjarskóla í hópinn. Eftir nafnasamkeppni í mars 2019 var ákveðið að Frístundaheimilið í Þorpinu fengi nafnið Krakkadalur sem rímar skemmtilega við aðra starfsemi.

Í Krakkadal fer fram skipulagt frístundastarf sem foreldrum/forráðarmönnum gefst kostur á að skrá börnin í eftir að skóladegi lýkur og er það opið til 16:15 alla virka daga. Einn skipulagsdagur er á hvorri önn en að öðru leiti er opið á skipulagsdögum skólanna og þá daga er opið frá 13:00 til 16:15. Krakkadalur opnar á haustin þegar skólarnir byrja og lokar þegar skóla lýkur að vori. Veturinn 2018/2019 eru u.þ.b 50 börn skráð í frístundaheimilið Krakkadal í Þorpinu.

Meginhlutverk frístundaheimila fyrir 6-9 ára börn er að bjóða börnum upp á innihaldsríkt frístundastarf/tómstundastarf samhliða skyldunámi í öruggu umhverfi þar sem starfshættir einkennast af frjálsum leik og vali.

Leiðarljós frístundaheimila er: 

Að bjóða öllum börnum þátttöku í fjölbreyttu frístundastarfi án aðgreiningar með það að markmiði að efla sjálfstraust og félagsfærni þeirra.

Að bjóða upp á umhverfi sem einkennist af öryggi, fagmennsku og virðingu þar sem jákvæð samskipti og lýðræðislegir starfshættir eru í hávegum hafðir

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gefið út markmið og viðmið um gæði starfs á frístundaheimilum fyrir 6-9 ára börn í samræmi við ákvæði í lögum um grunnskóla sem samþykkt voru á Alþingi í júní 2016. Starfsemi frístundaheimila hefur þróast á ýmsan veg frá árinu 1995 þegar heimildarákvæði var sett grunnskólalög. Í kjölfar lagasetningar 2016 stofnaði ráðuneytið starfshóp, sem hafði það hlutverk að vinna viðmið um gæði frístundastarfs, þ.m.t. um hlutverk og markmið, skipulag og starfsaðstæður, starfshætti, margbreytileika, stjórnun og menntun starfsfólks. 

Skýrsla starfshóps um frístundaheimili fyrir 6-9 ára börn, hlutverk, leiðarljós, markmið og viðmið

K567 – starf fyrir 10-12 ára börn

Alla virka daga er opið fyrir 10-12 ára krakka í Arnardal frá kl 13.30 -16. Auk þess er boðið upp á félgsmiðstöðvastarf fyrir krakka í 5.-7 bekk á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl 16.30-18.00 á völdum tímabilum.

Veturinn 2018/2019 hefur verið í gangi þróunarstarf til að finna út hvað hentar þessum aldurshópi bæði hvað varðar innihald, dagskrá og tíma.

Í vetur hefur verið boðið upp á skipulagt frístundastarf með dagskrá og með sömu markmiðum og annað frístundastarf í Þorpinu. Þetta starf var auglýst sérstaklega og fengu foreldrar barna á þessum aldri sent bréf heim þar sem klúbbastarfið var kynnt.

Einnig var farið inn í alla bekki á miðstigi grunnskólanna með kynningar. Nú í vor fá krakkarnir í 5.-7.bekk og foreldrar þeirra senda heim könnun þar sem þeir eru beðnir um að svara nokkrum spurningum.

Allt er þetta gert til að geta komið betur á móts við þennan aldurshóp til að geta mætt þeirra vonum og væntingum.

Að lokum

Nú hef ég stiklað á stóru varðandi þá starfsemi sem fram fer í Þorpinu. Er það von mín að fólk átti sig betur á öllu því starfi sem fram fer í Þorpinu og fyrir hvað hver eining stendur.

Heiðrún Janusdóttir

http://localhost:8888/skagafrettir/2019/04/04/pistill-thorpid-i-kaupstadnum-fyrsti-hluti/
http://localhost:8888/skagafrettir/2019/04/06/pistill-thorpid-i-kaupstadnum-ll-felagsmidstodin-arnardalur/
http://localhost:8888/skagafrettir/2019/04/12/pistill-thorpid-i-kaupstadnum-lll-hvita-husid-ungmennahus/