SkagaTV: „Engin sía á milli þess sem ég hugsa og segi“


„Það eru allir mjög spenntir fyrir sumrinu, leikmannahópurinn er mjög samstilltur og við erum allir „peppaðir“ fyrir tímabilið í Pepsi-Maxdeildinni,“ segir Árni Snær Ólafsson markvörður og fyrirliði ÍA.

Árni segir að leikmenn liðsins finni vel fyrir þeim góða meðbyr sem sé til staðar í samfélaginu á Akranesi.

„Það er geggjuð stemning í bæjarfélaginu fyrir liðinu og fótboltanum í heild sinni. Þetta helst allt í hendur. Okkur hefur gengið vel. Umfjöllunin hefur verið góð hjá fréttamiðlum hér á Akranesi. Við finnum vel fyrir meðbyrnum í bæjarfélaginu og við erum með gott lið.“

Það fer vart framhjá áhorfendum á leikjum ÍA að Árni Snær getur talað hátt og snjallt. Hann lætur samherja sína heyra það ef þeir fara út af sporinu. Árni Snær segir að hann muni lítið eftir því sem hann segi í leikjum.

„Það er engin sía á milli þess sem ég hugsa og segi. Ég segi bara það sem ég hugsa og stundum veit ég ekkert hvað ég er að segja og ég man fátt eftir leiki. Strákarnir eru orðnir vanir þessu og þeir kippa sér flestir ekkert upp við þessi „hróp og köll.“

Fyrirliðinn segir að lokum að það sé verkefni liðsins að ná ÍA í fremstu röð á ný – og landa titli sem allra fyrst. Hann á ekki von á því að skora mark í sumar – nema að Jóhannes Karl þjálfari treysti honum til þess að taka víti.

„Okkur er spáð sjötta sætinu. Það eru það mikil gæði í liðinu að við eigum að geta „strítt“ liðunum í fimm efstu sætunum. Við sem hópur höfum tröllatrú á liðinu og liðið getur vel blandað sér í baráttuna um efstu sætin. Sagan og sigurhefðin sem er til staðar hjá ÍA truflar okkur ekkert. Það er allt í lagi að tala um gamla tímann og hvernig hlutirnir gengu vel áður. Það er eitthvað sem hvetur okkur áfram til að ná árangri. Að horfa á öll ártölin á Akranesstúkunni er áskorun fyrir okkur sem lið að bæta einu ártali við á stúkuna. Það þarf að gerast sem fyrst,“ sagði Árni Snær Ólafsson fyrirliði ÍA.