Nýr leikmaður með mikla Skagatengingu í raðir ÍA


Aron Kristófer Lárusson er nýr leikmaður ÍA samkvæmt frétt sem birt var á fotbolti.net í dag.

Hjörvar Hafliðason, sparksérfræðingur Stöðvar 2, greindi frá þessu fyrstu manna á Twitter.

Aron Kristófer er tvítugur, fæddur árið 1998, og hefur leikið rúmlega 40 leiki í Inkasso-deildinni með Þór frá Akureyri. Hann lék með Völsungi í 2. deildinni í eitt tímabil.

Aron Kristófer hefur leikið sem vinstri bakvörður og er hann með afar öflugan vinstri fót samkvæmt heimildum Skagafrétta.

Faðir Arons Kristófers er Lárus Orri Sigurðsson, fyrrum landsliðsmaður Ísladns og atvinnumaður til margra ára. Lárus Orri lék með ÍA upp yngri flokkana fram til 16 ára aldurs. Árið 2010 gekk Lárus Orri í raðir ÍA og var til taks með meistaraflokki ÍA.

Lárus Orri lék með Stoke City á Englandi á árunum 1994-1999 og með WBA fram til ársins 2004. Lárus Orri lék 42 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði 2 mörk.

Sigurður Lárusson, faðir Lárusar Orra og afi Arons Kristófers, var lykilmaður í vörn ÍA þegar liðið var í fremstu röð.

Sigurður gekk í raðir ÍA árið 1979. Var hann einn af lykilmönnum í liði Skagamann frá 1979 til 1988, lék samtals 295 leiki fyrir félagið.

Lengst af var hann fyrirliði liðsins og leiddi það til tveggja Íslandsmeistaratitla og fjögurra bikarmeistaratitla.

Árin 1983 og 1984 vann Sigurður tvöfalt með ÍA, bæði deild og bikar, afrek sem ekkert lið hefur leikið eftir í íslenskri knattspyrnusögu.

Árið 1988 tók Sigurður við þjálfun meistaraflokks ÍA og stýrði liðinu tvö keppnistímabil.-

Sigurður lést í byrjun janúar árið 2018 eftir veikindi, en hann var aðeins 63 ára gamall þegar hann lést.